Bláberja chia-búðingur

FAGURGERÐI – MATUR // Þessi chia-búðingur er auðveldur, fljótlegur og bragðgóður. Og hollur.

Hann hentar einnig sérlega vel til að taka með sér í nesti í skólann eða í vinnuna.

Chia-búðingurinn varð til eftir dálitla tilraunastarfsemi í eldhúsinu (en ekki hvað?). Ég bjó til nokkrar útgáfur af honum eða þar til ég var nógu sátt við áferðina og bragðið til að deila með ykkur.

Ég er samt síður en svo að finna upp hjólið hvað varðar þessa uppskrift. Á Pinterest má finna ó-t-e-l-j-a-n-d-i uppskriftir að chia-búðingum í öllum mögulegum og ómögulegum útgáfum. Sem er ekki skrítið því að chia-búðingar eru algjör snilld! 🙂

Hráefni:
1/4 bolli chiafræ (ég mæli með frá Navitas)
3 msk gróft kókosmjöl
1/2 tsk lífrænt vanilluduft
1/4 tsk kanill
Smá sjávarsalt
1 + 1/4 bolli möndlumjólk (annað hvort heimatilbúin eða frá EcoMil)
1/3 bolli bláber

Aðferð:
1. Notið stóra krukku (t.d. af kókosolíu) og setjið chiafræin, kókosmjölið, vanilluna, kanilinn og sjávarsaltið ofan í. Hærið aðeins með skeið svo að allt blandist vel.
2. Hellið möndlumjólkinni í krukkuna og hrærið vel saman með skeið.
3. Setjið bláberin ofan í og hrærið vel saman.
4. Setjið lokið á krukkuna og inn í ísskáp. Best að láta standa yfir nótt.

Njótið!

ATH. #1 Vanilluduft er allt öðruvísi en vanilludropar + maður þarf mun minna af því. Þó að það sé dýrara en droparnir þá er það þess virði.
ATH. #2 Þið getið að sjálfsögðu líka blandað búðinginn í skál í stað þess að nota krukku. Ég nota aftur á móti alltaf krukku þrátt fyrir að borða búðinginn oftast bara heima hjá mér 🙂
ATH. #3 Það er í góðu lagi að nota frosin bláber í þetta. Passið bara að hræra vel í krukkunni þannig að bláberin verði ekki að einni klessu. Eins er í góðu lagi að setja meira – eða minna – af bláberjunum. Það sama á við um kókosmjölið, vanilluna og kanilinn. Bragðlaukar okkar eru svo ólíkir og því ættu allir að vera óhræddir við að fikta sig áfram og laga þessa uppskrift að sínum smekk.

johanna@fagurgerdi.is

Fyrri greinBreyta og stytta stíg
Næsta greinKristín Þórðar: Gleðitíðindi úr Rangárþingi eystra