Súkkulaði fyrir sælkera

FAGURGERÐI – MATUR // Þetta er súkkulaði fyrir þá sem kunna virkilega að meta dökkt súkkulaði.

Ef þið eruð mjólkursúkkulaðitýpan þá er ólíklegt að ykkur finnist þetta súkkulaði gott. En ef þið viljið hafa súkkulaðið dökkt með miklu kakóbragði þá eigið þið eftir að kunna meta þetta.

Þetta súkkulaði er í hollari kantinum þar sem ég notaði döðlur sem sætu. Í raun er ég farin að nota döðlur miklu oftar sem sætu en hunang. Ástæðan er aðallega sú að ég hef alltaf minna og minna sykur/sætuþol – sem er auðvitað bara gott mál.

Hráefni:
1 bolli döðlur
1 bolli kakósmjör
2 msk kókosolía, við stofuhita
1 bolli (tæplega) raw kakóduft
1 tsk lífræn vanilla
1/4 tsk sjávarsalt
1/2 bolli möndlur
1/4 bolli kakónibbur

Aðferð:
1. Setjið döðlurnar í skál og hellið sjóðandi heitu vatni yfir þær. Látið liggja í vatninu í amk 10 mínútur. Þetta er gert til að mýkja þær þannig að það verði auðveldara að vinna með þær.
2. Bræðið kakósmjörið í vatnsbaði. Ath. það getur verið erfitt að skera akkúrat 1 bolla af kakósmjöri en hafið ekki áhyggjur af því – það er allt í lagi þó að það sé aðeins minna eða meira af því.
3. Hellið vatninu af döðlunum og kreistið allan auka vökva úr þeim. Setjið í kröftugan blandara eða í matvinnsluvél og maukið döðlurnar.
4. Leyfið kakósmjörinu að kólna aðeins áður en þið setjið það í blandarann/matvinnsluvélina ásamt kókosolíunni. Blandið kakósmjörinu og kókosolíunni vel saman við döðlurnar.
5. Setjið vanilluna, sjávarsaltið og kakóduftið í blandarann/matvinnsluna og blandið saman á hægum hraða. Athugið að blandan verður mjög þykk og ekki víst að allir blandarar ráði við hana.
6. Þegar blandan er orðin silkimjúk, hellið henni þá í stóra skál.
7. Saxið möndlurnar niður (þið ráðið hversu gróft eða fínt) og setjið í skálina ásamt kakónibbunum. Blandið öllu vel saman með sleikju.
8. Setjið bökunarpappír á stórt skurðbretti og hellið blöndunni á pappírinn. Jafnið úr súkkulaðiblöndunni með sleikju og skerið línur í hana með beittum hníf. Þannig verður auðveldara að brjóta sér bita þegar súkkulaðið hefur harðnað.
9. Setjið brettið inn í frysti í 15 mín eða svo. Súkkulaðið er mjög fljótt að verða hart (og tilbúið til átu).
10. Fáið ykkur bita og munið að njóta hvers bita. Þetta er svo sannarlega súkkulaði sem nærir og kætir kroppinn!

Ath. Það margborgar sig að nota gæðahráefni í þetta súkkulaði. Gæðahráefni þýðir gæðasúkkulaði. Fólk ætti líka alltaf að velja lífrænt frekar en hitt, heilsu sinnar og umhverfisins vegna. Þú átt aðeins það besta skilið.

johanna@fagurgerdi.is

Fyrri greinART teymið fær jákvæðar undirtektir á alþjóðlegu málþingi
Næsta greinGróðurspretta mæld af vísindalegri nákvæmni