Sumarlegar kexkökur fyrir káta kroppa

FAGURGERÐI – MATUR // Á sumrin er fólk oft á ferð og flugi og þá getur verið gott að eiga eitthvað handhægt að grípa með sér í ferðalagið eða útileguna… já, eða bara út í garð!

Hér eru tvær uppskriftir af kexi sem gott er að eiga. Annað er ósætt og er bæði gott eitt og sér eða með hummus, ostum eða avocado og fersku grænmeti. Hitt er sætara og nýtur sín best eitt og sér eða með góðum mjúkum osti og þá er alveg óþarfi að setja sultu líka. Basilikublað eða hundasúra færu mikið betur!

Ósætt kex
nokkrar vænar gulrætur, rifnar smátt (fjöldi fer eftir stærð, látiði tilfinninguna ráða)
1 appelsínugul paprika (má nota rauða)
1/2 chillipipar (má sleppa eða setja smá cayenne)
1/2 bolli möluð hörfræ
1/2 bolli möndlumjöl (með hýði)
1/2 bolli sesamfræ eða hörfræ
1 bolli vatn
salt

Byrjið á að leggja bæði möluðu hörfræin og fræin í bleyti í 1 bolla af vatni. Við þetta verða þau gelkennd og það hjálpar til við að halda öllu saman. Setjið það sem eftir er (nema möndlumjölið) í matvinnsluvél eða maukið með töfrasprota. Blandið síðan öllu saman í góðan þykkan graut og dreyfið í þunnu lagi á teflexpappír á ofnplötu eða þurrkofnsplötu. Ef þið notið bakaraofn skuluð þið stylla hann á lægsta hita og blástur og hafa ofnhurðina örlítið opna, þ.e.a.s ef þið viljið fá hrákex en auðvitað má líka baka það við 150-180°C þar til bakað í gegn. Fylgist þið þá vel með því þið viljið það ekki ofbakað.

Það er gott að nota borðhníf til að gera raufir í degið áður en það er bakað til þess að auðvelda að brjóta það í ferninga eða tígla. Ef þið þurrkið kexið á lágum hita er gott að losa það af teflexblaðinu eftir nokkrar klukkustundir og snúa því við. Það er síðan þurrkað alveg í gegn. Tíminn sem það tekur getur verið breytilegur og fer t.d. eftir því hvað gulræturnar og paprikan eru safarík en reiknið með amk 12 klst. Þetta er upplagt að gera yfir nótt. Ef þið notið gyllt hörfræ og appelsínugula papriku verður kexið fallega gult og sumarlegt en auðvitað er það ekki nauðsynlegt. Athugið að hér má auðveldlega líka nota hrat af grænmeti sem fengið hefur ferð í gegn um safapressuna. Til dæmis ef þið hafið gert ykkur safa úr gulrótum og engifer.

Sætt kex
1 þroskað mangó
þumlungur af engifer, rifinn (má sleppa)
2/3-1 bolli kókosmjöl eða nóg til að fá góða grautarþykkt á degið
1/2 bolli gyllt hörfræ, lögð í bleyti í nokkrar klst.

Byrjið á að leggja hörfræin í bleyti. Setjið mangó og engifer í blandara og blandið vel. Hrærið afgangnum af hráefnunum saman við. Þið eigið að fá þykkan og góðan graut. Ef degið er of þunnt bætið þið hörfræjum eða kókosmjöli út í. Smyrjið deginu í c.a. 5mm þykku lagi á teflexblað og markið raufar í það til þess að auðveldara verði að brjóta það í hæfilegar kexkökur. Þurrkið alveg í gegn í þurrkofni eða bakaraofni (sjá leiðbeiningar með ósætu kexi).

olof@fagurgerdi.is

Fyrri greinHallgrímsstofa opnuð í Kaupfélagssafninu
Næsta greinKvennahlaupið á Selfossi