Falinn dekurstaður

FAGURGERÐI – HEILSA // Einn af uppáhalds stöðunum mínum hér á Selfossi er falinn inni í Hótel Selfoss.

Riverside Spa er algjör drauma staður þar sem maður gleymir stund og stað í nær sér í djúpa og góða slökun frá amstri dagsins.

Í Riverside Spa er bæði boðið upp á hefðbundið íslenskt gufubað og sauna. Þar er stór heitur pottur, þar sem líkt er eftir stjörnubjartri nótt með dansandi norðurljósum, sem er einkar notaleg upplifun. Þrjár tegundir af slökunarsturtum, fallvatns- og regnskógasturturnar eru vinsælar en svo er einnig hressandi að kæla sig niður með gusu úr köldu fötunni. Slökunarherbergið er notalegt þar sem hægt er að leggjast í góða stóla og jafnvel gleyma sér um stund.

Ég er með ákveðna rútínu sem ég nota oftast þegar ég fer og ætla ég að deila henni með ykkur: Fyrst fer ég í pottinn í ca 20 mín og nudda mig svo alla með klaka þegar ég kem úr honum. Næst er það gufan í smá stund og svo er extra hressandi að skella sér undir fötuna með kalda vatninu. Til að fá aftur hita í kroppinn þá fer ég í sauna klefann og læt mig þorna áður en ég fer svo inní slökunarherbergið þar sem ég læt líða úr mér. Eftir þetta er ég endurnærð á líkama og sál.

Riverside Spa býður einnig upp á alla almenna snyrtiþjónustu; andlitsböð, litanir, hand og fótsnyrtingu, vaxmeðferðir og svo eru girnilegir nudd og dekurpakkar einnig í boði hjá þeim.

Ég mæli klárlega með þessu ljúfa dekri fyrir vinkonuhópa eða pör og svo væri nú kjörið að skipta þessu út fyrir næsta saumaklúbb og prófa eitthvað nýtt.

Aðgangur í baðstofuna kostar kr. 2.500 (tilboð fyrir hópa) og einnig er hægt að fá allar upplýsingar um meðferðir og fleira hjá þeim á heimasíðu Riverside Spa.

asta@fagurgerdi.is

Fyrri greinFékk iðntölvu og hraðabreyti að gjöf
Næsta greinHraðakstursbrotum fækkar