Mexíkanskur baunaréttur

FAGURGERÐI – MATUR // Þennan rétt bjó ég til fyrir nokkrum vikum. Ég var búin að steingleyma að pósta uppskriftinni þar til ég sá mjög svipaða uppskrift á facebook hjá einni vinkonu minni.

Það er samt merkilegt hvernig einhverjir réttir eru svipaðir í grunninn en með ólíkum kryddum sem gefur gjörólíka útkomu. Eins getur eldunaraðferðin oft breytt heilmiklu upp á lokabragð og lokaútkomu að gera.

Uppskriftina fann ég myfooddiary.com. Eins og með svo margar aðrar uppskriftir þá rambaði ég á hana í gegnum Pinterest. Ég breytti uppskriftinni lítillega og þá aðllega eldunaraðferðinni. Í upphaflegu uppskriftinni stóð að maður ætti að elda sætu kartöflurnar í örbylgjuofni. Ég á ekki einu sinni örbylgjuofn og er alfarið á móti slíku tæki. Örbylgjuofnar skemma næringarefnin í matnum. Það er ekki að ástæðulausu að fólk má t.d. alls ekki hita upp brjóstamjólk í örbylgjuofni.

Rétturinn er léttur í maga en samt saðsamur. Hann er bragðsterkur en samt bragðgóður. Sem sagt, ákaflega góður réttur. Að minnsta kosti fannst Guggu mágkonu minni það 🙂

Hráefni:
½ bolli svartar baunir, lagðar í bleyti yfir nótt
2 stk sætar kartöflur, meðalstórar
2 hvítlauksrif, pressuð
2 stk vorlaukar, smátt saxaður
2 msk ferskur kóríander, smátt saxaður
2 msk næringarger
½ tsk cumin
½ tsk chilli duft
½ tsk sjávarsalt
½ tsk oregano
smá kanill (minna en ¼ tsk)
safi úr einni lime

Aðferð:
1. Stillið bakaraofninn á 160° (með blæstri).
2. Eldið svörtu baunirnar samkvæmt leiðbeiningum. Þegar það er hægt að kremja þær með puttunum eru þær tilbúnar.
3 Skerið sætu kartöflurnar langsum, setjið á ofnplötu (með bökunarpappír undir) og bakið í bakaraofninum í 60 mín.
4. Þegar kartöflurnar eru tilbúnar, látið þær þá kólna örlítið eða þar til þið getið fjarlægt hýðið af þeim. Setjið þær því næst í stóra skál og stappið þær saman.
5. Setjið hvítlauk, vorlauk, kóríander, næringarger, cumin, chilli duft, salt, oreganó, kanil og lime-safa saman við stöppuna og blandið vel saman.
6. Þegar baunirnar eru full eldaðar, hellið þá vatninu af þeim og skolið þær vel með köldu vatni (t.d. í sigti). Setjið því næst baunirnar saman við stöppuna og blandið vel saman með sleikju. Þið eigið ekki að stappa baunirnar – ekki frekar en þið viljið.
7. Stillið bakaraofninn á 200°(með blæstri).
8. Nú hafið þið um tvennt að velja, a) annað hvort að setja stöppuna með öllum kryddunum og baununum í margar litlar skálar eins og ég gerði b) eða þá að setja bara allt í miðlungsstórt eldfast form. Ílátið skiptir ekki öllu máli, þetta snýst meira um útlitið.
9. Bakið í ofninum í sirka 20 mín.

ATH. Ef ykkur finnst vera vesen að elda svörtu baunirnar þá getið þið alltaf keypt niðursoðnar svartar baunir. Ein dós samsvarar sirka hálfum bolla af þurrum baunum. Niðursoðnar baunir eru þó ekki eins „hollar“ og þær sem maður sýður sjálfur en allt í lagi að grípa í þegar maður er í tímaþröng.

Njótið!

johanna@fagurgerdi.is

Fyrri greinLátlaus sókn Ægis skilaði engu
Næsta greinPíratar bjóða ekki fram í Árborg