Hugum að líkamsstöðunni

FAGURGERÐI – HEILSA // Góð líkamsstaða og líkamsbeiting er því miður mjög vanmetin.

Fólk gerir sér oftast ekki grein fyrir hvernig líkamsstaða og -beiting þess er og veit hreinlega ekki hvað hún skiptir miklu máli. Það skiptir ekki bara máli að geta staðið eða setið rétt, við verðum líka að geta hreyft okkur í réttri líkamsstöðu, gert æfingar, sinnt húsverkum, unnið vinnuna okkar og leyst önnur dagleg verkefni án þess að leggja óþarfa álag á líkamann. Rétt líkamsbeiting er ekki síður mikilvæg til að halda heilsu en regluleg hreyfing og þjálfun.

Algengustu ástæður fyrir slæmri líkamsstöðu eru slæmur vani, verkir, vöðvaójafnvægi (stuttir/stífir vöðvar eða langir/slappir vöðvar) og það að vilja ekki vera hávaxinn, sérstaklega hjá börnum og unglingum sem vaxa hratt og stækka umfram jafnaldra sína.

Atriði sem gott er að hafa í huga þegar við stöndum:

  • Hafa jafnan þunga á báðum fótum
  • Hafa jafnan þunga á hælum og tábergi
  • Ekki „læsa“ hnjám
  • Rétta úr bakinu
  • Slaka á öxlum
  • Bera höfuðið hátt en passa að hakan leiti ekki fram

Atriði sem gott er að hafa í huga þegar við sitjum:

  • Sitja með jafnan þunga á báðum rasskinnum
  • Hafa fætur í gólfi eða nota skemil
  • Ekki krossleggja fætur
  • Hné eiga að vera í sömu hæð og mjaðmir eða aðeins lægra
  • Slaka á öxlum, stilla stólarma rétt
  • Skipta mús á milli hægri og vinstri handar reglulega ef unnið er við tölvu
  • Rétta úr baki og öxlum
  • Sitja með bakið upp við stólbak, gott að hafa stuðning við mjóbak
  • Passa það sérstaklega að höfuð leiti ekki fram, ágætt að hugsa hökuna frekar inn á við en án þess að búa til undirhöku ☺

Það er mjög mikilvægt að velja góðan stól ef setið er við vinnu. Það þarf að vera hægt að stilla stólhæð, -halla, -bak og arma. Þá er einnig mikilvægt að læra á og nýta sér stillimöguleikana, ekki bara í upphafi heldur yfirfara reglulega stillingarnar. Ef möguleiki er til staðar þá er langbest að hafa hækkanlegt og lækkanlegt borð svo hægt sé að velja hvort staðið eða setið er við vinnu. Góð þumalputtaregla við sitjandi vinnu er að standa upp á 30 mín fresti.

Leiðir til að bæta líkamsstöðu:

  • Notaðu spegilinn. Horfðu á þig frá hlið og sjáðu hvort staðan á þér sé góð. Þú átt að geta dregið línu í gegnum þig sem liggur frá eyrnasnepplum, gegnum axlir, mjaðmir, hné og ökkla. Einnig að meta hvort sveigjur á hrygg séu eðlilegar, mega ekki vera of ýktar né of litlar.
  • Prófaðu að standa með bak við vegg; hælar, rasskinnar, herðablöð og hnakki eiga að geta snert vegginn án þess að þú hafir of mikið fyrir því, ef ekki þá þarftu að vinna í líkamsstöðunni þinni
  • Stunda reglulega hreyfingu, styrkja veika vöðva og teygja stutta vöðva
  • Vera meðvitaður, minna sjálfan sig á að laga alla litlu hlutina sem taldir eru upp hér að ofan
  • Jóga og Tai Chi eru góðar leiðir til að læra að skynja betur líkamann sinn (auka líkamsvitund)

Það er algjör óþarfi að hætta á að fá verki og önnur vandamál sem vinda svo gjarnan upp á sig með tímanum og verða að stærra vandamáli vegna slæmrar líkamsstöðu. Þetta þarf ekki að vera flókið – verum meðvituð!

hildurgrims@fagurgerdi.is

Fyrri greinListi Bjartrar framtíðar í Árborg fullskipaður
Næsta greinÍvar komst í fjórtán manna úrslit