Páskar og chili-súkkulaði

FAGURGERÐI – HEIMILIÐ // Það er alltaf gaman að skreyta eitthvað smá fyrir páskana þó að það sé algjör óþarfi að ofgera.

En smekklegt og einfalt páskaskraut er alveg málið og tilvalið að dunda sér við í vikunni. Einfaldasta leiðin er að kaupa sér fallega grein, útbúa nokkur DIY egg og hengja á.

Ég keypti mér bara eggjabakka, notaði nál til þess að útbúa gat á eggið að ofan og stærra að neðan. Það þarf að nota eitthvað til lemja létt ofan á nálina t.d. skæri, hamar eða hníf. Hræra með nálinni í rauðunni til þess að skilja hana og svo er blásið í gegnum eggið.

Þegar búið er að ná öllu úr egginu lét ég vatn renna í gatið, hristi til að hreinsa það og blés aftur í gegnum götin. Best er að láta eggið þorna í ca 2 klst áður en byrjað er að skreyta það. Til þess að hengja það upp notaði ég girni sem ég þræddi í gegnum eggið með langri nál, setti hnút á girnið að neðan og batt utan um teiknibólu. Síðan setti ég smá lím á teiknibóluna og stakk henni í gegnum neðra gatið og togaði um leið í girnið að ofanverðu. Þetta er smá föndur en alveg vel þess virði.

Einnig er smart að nota kertastjaka sem statíf fyrir kerti og egg í bland.


Kertastjakar og vasar úr Motivo – skreytingarefni úr Hlöðunni.

Hér fyrir neðan eru svo fleiri hugmyndir um hvernig má lífga aðeins uppá heimilið fyrir páskana.

Smellið hér til þess að fá leiðbeiningar um hvernig má útbúa þessa hluti ásamt fleiri sniðugum hugmyndum.

Svo er náttúrulega nauðsynlegt að útbúa sín eigin páska egg. Hér er æðisleg uppskrift í hollari kantinum sem ég mæli klárlega með að prófa.

Chili páskaegg
300 g suðusúkkulaði
1 dl pistasíu hnetur hakkaðar
1 dl möndlur hakkaðar
½ dl salthnetur hakkaðar
½ dl valhnetur hakkaðar
5 dl All bran morgunkorn
1/2 – 1 tsk chili krydd eftir smekk
2 msk hakkaðar pistasíuhnetur til að skreyta með
2 msk hakkaðar möndlur til að skreyta með

Bræðið súkkulaðið í vatnsbaði. Hrærið All bran útí ásamt hnetunum og kryddið með chili. Blandið þessu öllu saman.

Mótið kúlulaga egg með höndunum og setjið á bökunarpappír, stráið pistasíuhnetum og möndlum yfir til skrauts og setjið í frysti í ca 1 klst. Nauðsynlegt er að bleyta hendurnar áður en hvert egg er mótað og þrýsta því vel saman.

Það má nota allskonar hnetur og bara velja það sem maður á til, það þarf ekkert endilega að notast við þessar sem ég gef upp að ofan aðeins þarf að setja sama magn í uppskriftina. Einnig hef ég notað kókosmjöl í stað pistasíu hnetanna og skreytt þá með því líka.

Svo þegar þið farið í matarboðin yfir páskana þá er sniðugt að setja nokkur egg í krukku, setja borða á og mæta með heimatilbúna gjöf handa gestgjöfunum.


Kertastjakar og skálar úr Motivo – skreytingarefni úr Hlöðunni.

Gangi ykkur vel í páskaskreytingum og gleðilega páska.

asta@fagurgerdi.is

Fyrri greinStrákarnir okkar: Jón Daði eini markaskorari Viking
Næsta greinSelfoss tapaði á Akureyri