Nýstárlegur lopagalli með fornu mynstri

FAGURGERÐI – HANNYRÐIR // Ég á eina stelpu. Hún heitir Þórunn Erla og er 16 mánaða. Hún er algjör gullmoli sem bræðir alla í kringum sig með prakkabrosinu og uppátækjum sínum.

Þegar hún var pínku pons, eða fyrir um það bil ári síðan prjónaði ég lopagalla á litla krúttið.

Á þeim tíma var ég að vinna verkefni í skólanum sem tengdist nýsköpun og vann mikið með íslenskar handyrðir. Ég bjó til prjónamynstur uppúr gömlum mynstrum, en við á Íslandi erum svo lánsöm að eiga Íslensku Sjónabókina sem Listaháskóli Íslands og Þjóðminjasafnið gaf út árið 2009. Þar er að finna mynstur upp úr gömlum handritum sem safnað hefur verið saman í eitt stórt og veglegt rit. Ég nýtti mér það, meðal annars, til þess að gera mynstur í lopagallann hennar Þórunnar Erlu.

Gallinn er prjónaður úr tvöföldum plötulopa frá Ístex. Aðalliturinn er hvítur en sumarlitirnir gefa gallanum svo sannarlega lit.

Eins og sést þá eru stroffin neðst á buxnaskálmunum með örlítið óhefðbundnu formi. Bæði vegna þess að þau eru ekki eins á litin en á þeim er líka smá blúnda. Til stóð að hafa stroffin á ermunum með sama sniði, en svo fannst mér það full mikið af hinu góða og sá fyrir mér að gallinn myndi enda sem trúðagalli.

Ef þú hefur áhuga á því að fá eignast mynstrið sem er á berustykkinu (frítt að sjálfsögðu!) hafðu samband við mig á steinunnbirna@fagurgerdi.is

Fyrri greinÓtrúlegar tölur hjá Schweers
Næsta greinStórleikur í Iðu í kvöld