Guðdómlegur kjúklingabaunaréttur

FAGURGERÐI – MATUR // Þessi réttur varð til – eins og svo margt annað – eftir smá tilraunastarfsemi í eldhúsinu. Hann er ákaflega bragðgóður, saðsamur og hollur.

Hráefni:
1 bolli af þurrkuðum kjúklingabaunum
2 stk sætar kartöflur
1 msk kókosolía
1 stk laukur
1 stk rauð paprika
1 msk ferskt engifer
300 ml kókosmjólk
1 tsk sjávarsalt
1 tsk karrý
nokkrar „hristur“ af cayenne pipar
½ tsk kóriander (krydd)
2 msk sítrónusafi (úr ferskri sítrónu)

Aðferð:
* Byrjið á því að sjóða kjúklingabaunirnar eftir leiðbeiningum. Ég mæli með því að leggja þær í bleyti yfir nótt, það styttir suðutímann töluvert.
* Skerið sætu kartöflurnar í tvennt (langsum) og bakið í ofni við 160° gráður í 60 mínútur.
* Saxið laukinn frekar smátt og steikið upp úr kókosolíunni. Gott að bæta við vatni ef ykkur finnst vanta meiri olíu, óþarfi að setja meiri olíu. Notið pott en ekki pönnu.
* Rífið niður ferskt engifer þannig að það samsvar 1 msk og setjið saman við laukinn. Steikið í smá stund.
* Saxið niður paprikuna og setjið í pottinn og steikið í smá stund.
* Passið upp á hitann. Það er óþarfi að hafa á hæsta straumi nema í byrjun þegar þið eruð að steikja grænmetið.
* Hellið kókosmjólkinni í pottinn og hrærið.
* Setjið kryddin í pottinn og hrærið vel saman. Ath. ef þið eruð óvön cayenne pipar þá gæti verið gott að minnka hlutfallið aðeins og frekar bæta við meiru eftir á.
* Takið sætu karöflurnar úr hýðinu (það er mjög auðvelt að gera það með höndunum) og setjð í pottinn. Gott að nota stappara til að blanda betur saman.
* Hellið kjúklingabaunum út í (án vökva) og hrærið saman við.
* Kreistið safa úr sítrónu yfir (2 msk sirka) og hrærið vel saman.
* Þegar allt hefur blandast vel saman (ath. að þið eigið ekki að stappa kjúklingabaunirnar – ekki nema þið viljið) þá er rétturinn tilbúinn.
* Gott að borða með hýðishrísgrjónum og mylja kókosflögur yfir.
* Þessi réttur er líka æði daginn eftir.

Njótið!

Fyrri greinDagbók lögreglu: Hnökkum stolið á Stokkseyri
Næsta greinFleiri verkefni til sýslumanns