Nýtt notagildi

FAGURGERÐI – HEIMILIÐ // Ég elska að finna nýtt notagildi út úr hlutum sem ég á heima hjá mér og er endalaust að breyta og prófa eitthvað nýtt.

Síðustu ár hef ég verið frekar veik fyrir Iittala vörunum og er alltaf að prófa mig áfram í að nota hlutina á óhefðbundinn hátt. Inni á baðherbergi nota ég t.d. vasa undir snyrtivörur og Kastehelmi kertastjakana undir eyrnapinna og bómul. Hugmyndina með vasann fékk ég hjá einni saumaklúbbssystur minni sem er afar smekkleg.

Í eldhúsinu nota ég kertastjaka undir salt og má endilega velja salt í fallegum litum því það bætir og kætir umhverfið og eldamennskuna. Ég er með vasa sem ég set ávexti í, t.d. lime, mandarínur, banana og bara það sem ég á til hverju sinni.
Aalvar alto vasi og kertastjaki, Kivi kertastjaki.
Um jólin gerði ég aðventukrans þar sem ég setti mosa í vasa og kerti og kom það mjög vel út. Mosann fékk ég í Sjafnarblóm ásamt kertastatífum sem ég stakk í mosann.
Kökudiskar eru nýtanlegir undir margt annað en kökur, allavega á mínu heimili þar sem ég er ekki færasta húsmóðirin í bænum. Á stofuborðinu er ég með naglalökkin mín á þessum fallega Kastehelmi kökudisk á fæti og það er einnig hægt að nýta hann undir margt annað ef maður bara leyfir ýmindunaraflinu að ráða.
Ég var lengi búin að hugsa um hvað ég gæti haft á eldhúsveggnum hjá mér því mig langaði ekki að hafa háf yfir eldavélinni. Að lokum datt ég niður á að hafa stóra mynd sem næstum þekur vegginn og gefur mjög flotta dýpt í eldhúsið.
Ég skora á ykkur að prófa eitthvað óhefðbundið með hlutum sem þið eigið heima hjá ykkur og þið megið svo endilega senda mér myndir af því á netfangið asta@motivo.is ég mun svo deila sniðugustu hugmyndunum á facebook síðu Motivo.
Í framhaldinu ætla ég svo að vera hér með pistla um allt sem mér finnst skemmtilegt og áhugavert svo endilega fylgist með.
Fyrri greinLeiðsögn um skúlptúra Rósu
Næsta greinEggert og Arna gefa kost á sér áfram