Guðbjörg Viðja endurheimti Hljóðkútinn

Guðbjörg Viðja Antonsdóttir endurheimti verðlaunagripinn Hljóðkútinn þegar hún sigraði Blítt og létt, söngkeppnni Mímis, nemendafélags Menntaskólans að Laugarvatni, í síðustu viku.

Að vanda var keppnin rúsínan í pylsuenda kynningardags ML. Tólf atriði kepptu um hinn sögufræga Hljóðkút og voru þau fjölbreytt og skemmtileg.

Sigurvegari kvöldsins var Guðbjörg Viðja Antonsdóttir með lagið Bad Blood, söngkonunnar og lagahöfundarins NAO. Bakraddir voru Brynhildur, Guðný, Sunneva og Marta. Viðja mun þvi varðveita verðlaunagripinn Hljóðkútinn fram að næstu keppni en hún þekkir gripinn vel enda sigraði hún einnig í keppninni árið 2015.

Annað sæti varð systranna Bjarnveigar Bjarkar og Bergrúnar Önnu Birkisdætra. Þær sungu Fleet Foxes lagið Tiger Mountain Peasant Song. Um undirleik á píanó sá þriðja systirin, Glódís Margrét Guðmundsdóttir.

Þriðja sæti hlaut Glódís Pálmadóttir fyrir flutning sinn á hinu ljúfa Edit Piaf lagi, La Vie en Rose, í Louis Armstrong útgáfu.

Leikar fóru svo að nafnbótina skemmtilegasta atriðið fengu bræðurnir Guðjón Andri og Ólafur Bjarni Jóhannssynir en þeir sungu Bonnie Tyler-lagið Holding Out for a Hero.

Myndir frá keppninni má sjá á myndasíðu skólans.

Fyrri greinFrostfiskur lokar í Þorlákshöfn
Næsta greinMS styður við handboltann á Selfossi