Jónas og Ritvélarnar í Skyrgerðinni

Jónas Sigurðsson og Ritvélar framtíðarinnar halda tónleika í Skyrgerðinni í Hveragerði föstudagskvöldið 18. ágúst kl. 21 á bæjarhátíðinni Blómstrandi dögum.

Jónas Sig og Ritvélar framtíðarinnar hafa verið á ferð og flugi undanfarið með viðkomu á öllum helstu tónlistarhátíðum sumarsins. Einnig hefur sunnudagshugvekja Jónasar og Ritvélanna á Kaffi Rósenberg í Reykjavík vakið mikla lukku og sveitin spilað fyrir fullu húsi hvern sunnudaginn á fætur öðrum í sumar. Stemmningin hefur verið slík að þakið hefur nokkrum sinnum ætlað af húsinu.

Nú er komið að Suðurlandi og nánar tiltekið Hveragerði þar sem hljómsveitin verður með tónleika sem hluta af bæjarhátíðinni Blómstrandi dagar. Hér er kærkomið tækifæri að slá margar flugur í einu höggi. Heimsækja blómabæinn sjálfan, berja augum fæðingarstað hins heilaga Kjöríss og enda síðan heimsóknina í einum elsta og hlýlegasta tónleikasal Suðurlands, Skyrgerðinni og njóta tónlistar með hljómsveit sem margir vilja meina að sé einhver skemmtilegasta og kraftmesta tónleikasveit landsins um þessar mundir.

Fyrri greinGuðmundur skoraði fimm
Næsta greinFyrstu landsleikirnir í íþróttahúsinu á Flúðum