Kiriyama Family bætist í hópinn á Laugarvatni

Sunnlenska hljómsveitin Kiriyama Family hefur bæst í hóp þeirra hljómsveita sem koma fram á Laugarvatn Music Festival um helgina en sveitin sendi frá sér nýja plötu núna í vor.

Þau bætast þar í hóp engra smá nafna því fyrir eru þar Jónas Sigurðsson og Ritvélar framtíðarinnar, Helgi Björnsson ásamt hljómsveit, Júníus Meyvant, hljómsveitin Valdimar, Snorri Helgason, Ylja og Tilbury. Hildur og fleiri.

„Það er náttúrulega alveg frábært að fá eitt sjóðheitt Suðurlandsband þarna inn og það var í raun hálfgerður klaufaskapur að bóka þau ekki strax. Kiriyama Family voru að senda frá sér alveg frábæra plötu og þetta verður bara alveg geggjað að fá þau með,” sagði Bessi Theodórsson, einn skipuleggjenda Laugarvatn Music Festival í samtali við sunnlenska.is.

„Miðasala gengur vel, það er ekki verið að selja áfengi á staðnum, en við leyfum drykki þar inn í plasti eða áldósum í höndum þeirra sem aldur hafa til. Þannig að þetta er farið að minna á gömlu góðu sveitaböllinn. Salurinn er að taka á sig rosalega flotta mynd og kerfið er að fara upp núna í þessum töluðu orðum,” bætti Bessi við.

Aðeins 800 miðar eru seldir á tónleikana og má enn nálgast miða á tix.is en einnig er miðasala í Héraðsskólanum og við innganginn.

Fyrri greinÁrborg í viðræður við ríkið um nýtt gólf í Iðu
Næsta greinUmferðartafir austan við Hellu