Arna, Bergrún og Birta sigruðu

Arna Dögg Sturludóttir, Bergrún Gestsdóttir og Birta Rós Hlíðdal sigruðu í Söngkeppni Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands sem haldin var í Iðu í kvöld.

Þær stöllur hrifu dómara og áhorfendur með flutningi sínum á laginu Don’t Worry About Me eftir bresku söngkonuna Frances. Þær Arna Dögg og Bergrún eru frá Þorlákshöfn en Birta Rós frá Hvolsvelli. Þær verða fulltrúar NFSu í Söngvakeppni framhaldsskólanna næsta vor.

Í 2. sæti varð Sandra Ýr Torfadóttir frá Hellu sem flutti lag Callum Scott, Dancing On My Own og í 3. sæti urðu Tungnastúlkurnar Margrét Kristinsdóttir og Þórhildur Lilja Þórarinsdóttir með lagið Dirty Paws eftir Of Monsters and Men. Verðlaunin fyrir bestu sviðsframkomuna komu í hlut Selfyssinganna Gabríels Werners Guðmundssonar og Þórunnar Aspar Jónasdóttur sem fluttu lag Emmsjé Gauta, Kinky.

Kvöldið í Iðu var hið glæsilegasta að vanda, Óskarsverðlaunaþema, og tíu glæsileg atriði sem kepptu um sigurinn.

Fyrri greinSelfoss vann stigakeppnina
Næsta greinGuðjón Orri í Selfoss