Varð skyndilega að stórri fjölskylduhátíð

Flúðir um Versló, er nafn á skemmtidagskrá sem verður á Flúðum um verslunarmannahelgina og er þetta annað árið í röð sem um nokkurskonar skipulagða útihátíð er að ræða á Flúðum þessa tilteknu helgi.

Og það vantar ekki að dagskráin er stórglæsileg. Umsjón hátíðarinnar er í höndum Bergsveins Theodórssonar, Bessa, en um samstarfsverkefni er að ræða með heimamönnum, ferðaþjónustuaðilum og sveitarfélaginu.

„Við hófum samstarf í fyrra og það tókst vel til og ákveðið að bæta svolítið í þetta árið og þetta er skyndilega orðið að stórri fjölskylduhátíð,“ sagði Bessi í samtali við blaðið. „Það tókst með hjálp góðs fólks og fyrirtækja svonsem eins og Vífilfelli og, Kaffi Grund og fleirum,“ bætti hann við.

Að þessu sinni hefst hátíðin með tónleikum í félagsheimili Hrunamanna á fimmtudagskvöld, en þá eru síðustu tónleikar í tónleikaröð Jónasar Sig og ritvélanna sem ferðast hafa um landið undanfarið. Meðal annarra atriða um helgina má nefna Pub-quiz, spurningaleik fyrir alla sem hefst kl. 18 á föstudag. „Það er svona til að hita fólk upp fyrir grillið,“ segir Bessi, en síðar það sama kvöld verður dansleikur með hljómsveitinni Á móti sól.

Á laugardeginum verður fjölskyldudagskrá allan daginn og traktora tryllingur í Litlu-Laxá, sjálfsagt með nokkuð kunnuglegu sniði, líkt og Bessi orðar það, en það er eitthvað við aksturslag hreppamanna á traktorum sem hefur mikið aðdráttarafl ár hvert.

„Þetta ætti að vera skemmtilegur dagur, en vissulega er fólk ekki bundið við hátíðardagskrá, því það er margt að fást við á og í grennd við Flúðir,“ segir Bessi og nefnir sem dæmi að þar séu tveir golfvellir, gamla laugin og Flúðalaugin, fótboltagolf og fleira og fleira. „Við hvetjum líka þá sem eru áhugasamir um að kynna þjónustu eða vöru fyrir gestum þennan dag að hafa samband og vera með, þarna er auðvitað ógrynni af matvælaframleiðendum og öðrum sem ættu að nýta tækifærið,“ segir hann.

Mögnuð kvölddagskrá bíður fólks þetta laugardagskvöld, því kl. 20 mun Örn Árnason, sem fagnar 30 ára skemmtikraftsafmæli um þessar munir, mæta í félagsheimiliið og eiga samtal við áhorfendur, flytur söngva og segir sannar lygasögur eins og honum er einum lagið. Og síðar það sama kvöld er það stórhljómsveitin Sálin hans Jóns míns, sem spilar fyrir dansi.

Á sunnudeginum er það Leikhópurinn Lotta sem hefur leik eftir hádegið og síðdegis fer fram hin landsfræga furðubátakeppni, og er enn verið að taka við skráningum að sögn Bessa. „Það er óskaplega gaman að fylgjast með hvað fólk getur verið uppátækjasamt í svona keppni,“ segir hann.

Líkt og áður er svo brekkusöngur og brenna í Torfdalnum, skammt frá límtrésverksmiðjunni og hátíðinni lýkur svo með dansleik á sunnudagskvöld, þar sem hin rangæska gleðisveit Made in sveitin spilar fyrir dansi. Líkt og flestir vita eru víðfeðm tjaldstæði fyrir ofan Flúðir, niður með Litlu-Laxá og gera hátíðarhaldarar ráð fyrir talsverðum fjölda gesta, en nægt pláss ætti að vera fyrir alla að þeirra sögn.

Fyrri greinSkjálftar í Kötluöskjunni – Vatnshæð eykst í Múlakvísl
Næsta greinEgill í níunda sæti í Gdynia