Forsala á Hátíð í bæ hefst 9. október

Níundu jólatónleikarnir „Hátíð í bæ“ fara fram í íþróttahúsinu Iðu á Selfossi miðvikudaginn 9 desember næstkomandi.

Í tilkynningu frá Kjartani Björnssyni, tónleikahaldara, segir að efnisval á tónleikunum sé ávallt miðað við efnilega og góða sunnlenska listamenn í bland við landsþekkta listamenn.

„Það verður mjög spennandi í næstu viku þegar við kynnum listamennina sem fram koma og hvetjum við gesti Hátíðar í bæ til þess að taka daginn frá. Skaftfellingar, Rangæingar og Árnesingar munu allir eiga fulltrúa listamanna á stóra sviðinu,“ segir Kjartan.

Sérstakt forsölutilboð verður á miðum til föstudagsins 13. nóvember og hefst sala þeirra föstudaginn 9. október á Rakarastofu Björns og Kjartans í Miðgarði á Selfossi og í gegnum síma og laugardaginn 14. nóvember á midi.is eftir að forsölutilboðinu lýkur.

Fyrri greinNý sýning Hrafnhildar Ingu í Gallerí Fold
Næsta greinSkjaldbreiðarvegur reyndist röllurum raun