Misskilningurinn með pissið

Margt hefur verið rætt og ritað um verkefni sem er í gangi á Roskilde Festival þetta árið – Frá pissi til pilsner – þar sem á að endurvinna piss hátíðargesta í bjórframleiðslu.

Vignir Egill Vigfússon skrifar frá Hróarskeldu:

Héldu þarna einhverjir, þar á meðal undirritaður í fyrstu, að ætti að hreinsa vökvann sjálfan til þess að vera undirstaðan í bjórnum. Kom á daginn að það var rangur misskilningur, eins og maðurinn sagði um árið, jafnvel skortur á skilningsleysi líka.

Staðreyndin er sú að nota á þvagið sem áburð fyrir bygg sem verður síðan notað í bjórinn sem drukkinn verður á hátíðinni árið 2017. Þvaginu er safna saman, alls 25 þúsund lítrum, í rennur sem er að finna víða á hátíðarsvæðinu. Þaðan fer það í bíla sem eru beintengdir við rennurnar. Bílarnir fara með pissið á akrana og bera það á byggið. Einfalt og þægilegt.

Framlög koma aðallega frá karlmönnum vegna þess að líkamlega eiga þeir auðveldara með að láta af hendi rakna í þessar rennur. Reyndar er mögulegt fyrir konur að gera slíkt hið sama með sérstaklega hönnuðum trektlaga pappahlutum – ekki verður þeirri framkvæmd lýst ítarlega hér.

Hátíðin sjálf styrkir þetta verkefni sem er að sjálfsögðu hugsað til að vera umhverfisvænt, að gera piss frá þessum rúmlega 100 þúsund bjórdrekkandi gestum að auðlind í stað þess að vera byrði. Þetta er mögulegt vegna þess að hátíðin er ekki rekin í gróðaskyni og styrkir fjölmörg mismunandi verkefni ár hvert.
Það er svo sem nóg af útihátíðum á Suðurlandi á hverju ári og þar, eins og annars staðar, þarf fólk að kasta af sér þvagi reglulega. Nú er bara spurning hvort grænmetisbændur í Hreppum, kornræktendur undir Fjöllunum eða bjórbændur í Flóanum geti nýtt sér þær auðlindir sem þar er að finna.
Daglegir pistlar frá Roskilde Festival verða hér á síðunni næstu daga.
Fyrri greinTíu Stokkseyringar lutu í gras
Næsta greinÞjótandi bauð lægst í ljósleiðaralagningu