Nýtt lag frá Tónum og Trix – MYNDBAND

Í lok maí kemur út fyrsta plata Tóna og Trix, tónlistarhóps eldri borgara í Þorlákshöfn. Platan er samnefnd hópnum en með honum á plötunni kemur fram einvala lið íslenskra tónlistarmanna.

Fyrsta lagið af plötunni hefur nú litið dagsins ljós og má hlusta á það í myndbandi hér neðst í fréttinni. Þar flytur hópurinn lagið Hæ Mambó, ásamt Bogomil Font.

Fleiri gestasöngvarar koma fram á plötunni og má þar nefna Kristjönu Stefáns, Sölku Sól, Jónas Sig, Unnstein Manuel og einnig básúnuleikarann Samúel J. Samúelsson og Unni Birnu á fiðlu. Allur þessi hópur leiddur áfram af frábærri hljómsveit. Hana skipa Tómas Jónsson á hljómborð, Sigtryggur Baldursson á slagverk, Birgir Steinn á kontrabassa og Óskar Kjartansson á trommur. Stjórnandi Tóna og Trix er Ása Berglind Hjálmarsdóttir, upptökum stjórnaði Stefán Örn Gunnlaugsson og Hafþór Karlsson sá um hljómjöfnun.

Á plötunni eru kunnug íslensk dægurlög, flest í latin stíl, ásamt lögum sem hópurinn sjálfur eða meðlimir úr honum hafa samið og vonast Tónar og Trix til þess að þetta sé plata sem Íslendingar og gestir þeirra hlusti á á ferðalögum sínum í sumar og syngi með!

Glæsilegir útgáfutónleikar verða haldnir í Þorlákshöfn 31. maí og í Gamla bíó þriðjudaginn 2. júní. Miðasalan er í fullum gangi en hún fer fram á midi.is, karolinafund.com og á Bókasafninu í Þorlákshöfn.

Tónar og Trix, tónlistarhópur eldri borgara í Þorlákshöfn, hafa starfað saman síðan vorið 2007 og má segja að frá og með þeim tíma hafi hópurinn verið í músíkalskri ævintýraför. Tónar og Trix hittast vikulega til þess að syngja, spila stundum á hljóðfæri, skapa og skemmta sér. Þá hefur þessi góði hópur gert ýmislegt sem margir hverjir töldu sig ekki eiga eftir að gera eins og að koma fram á stærðarinnar útgáfutónleikum Jónasar Sig árið 2012, syngja með Mugison um borð í bátnum Húna II, æfa upp mörg ólík tónleikaprógrömm og flytja fyrir ótal marga tónleikagesti, svo ég tali nú ekki um að spila á hljóðfæri og flytja sína eigin tónlist.

Hópurinn hefur staðið fyrir söfnun á Karolina Fund þar sem enn er hægt að leggja útgáfunni lið.

Þeir sem ekki þekkja Karolina Fund geta skoðað myndband hér þar sem vinir hópsins, Jóhanna og Kári, kenna fólki að nota vefinn. Við mælum með að fólk horfi á þetta dásamlega myndband.

Facebook Tóna og Trix

Fyrri greinSelfoss áfram í bikarnum
Næsta greinMyndir: FSu fagnaði vel