Sunnlendingar bestu ballgestir landsins

Það verður eitthvað fjörið í Hvítahúsinu í sérlegu Inghóls-reunion, eins og það er kallað, næsta laugardag, þann 14. mars. Þá verður þess sérstaklega minnst að 30 ár eru frá því Inghóll var opnaður.

Það kemur í hlut stórhljómsveitarinnar Sálin hans Jóns míns að leika fyrir dansi, rétt eins og þeir gerðu á síðasta almenna dansleik sem haldinn var í Inghól.

Stefán Hilmarsson segist ekki viss hvenær hljómsveitin spilaði í Inghól í fyrsta sinn þar. „Mér finnst líklegt að það hafi verið á öðru starfsári, 1989, árið sem „Hvar er draumurinn?“ kom út. Síðan tróðum við títt þar upp, einkum eftir að Guðlaugur Birnir hóf að reka staðinn og Þórir Jóhannsson í kjölfarið,” segir Stefán í samtali við Sunnlenska. Sjálfsagt verða einhverjir til að hjálpa honum að rifja þetta upp á ballinu á laugardagskvöldið.

Stefán segir Inghól hafa haft ákveðna sérstöðu. „Já, Inghóll var svolítið sérstakur í forminu, sór sig nokkuð í ætt við 80’s stílinn. Og stiginn uppá efri hæðina var einkennandi. Þetta var skemmtileg hita- og svitabúlla þegar best lét og fjölmenni var í húsinu. Mjög eftirminnilegur staður,” segir Stefán.

En hvað með sérstöðu Sunnlendinga sem ballgesta, er það staðreynd? „Já, að sumu leyti má segja það. Sunnlendingar eru reyndar einhverjir bestu ballgestir landsins og hafa alltaf verið það. Mér finnst ballmenningin standa þar enn nokkuð föstum fótum, á meðan margir aðrir staðir virðast hafa misst þann neista, einhverra hluta vegna. En Sunnlendingar eru nú sem fyrr duglegir að koma saman og skemmta sér á góðri stund,” segir söngvarinn knái.

Og hann segir böllin á Inghól hafa verið bæði eftirminnileg og skemmtileg. „Þau hafa verið mörg skemmtileg böllin í Inghóli, eiginlega öll bara. Ég man ekki annað en skemmtun og gleði frá þessum árum,” segir Stefán Hilmarsson, söngvar Sálarinnar, að lokum.

Fyrri greinRukkað fyrir leigu á kirkjum í Hrunaprestakalli
Næsta greinMagni smíðar brýr fyrir Þórsmörk