Jónas og Ritvélarnar á Selfossi

Næstkomandi laugardagskvöld munu Jónas Sig og Ritvélar framtíðarinnar spila á skemmtistaðnum Fróni á Selfossi.

Þónokkur tími er liðinn síðan þessi kraftmikla hljómsveit hélt tónleika á Selfossi. Tónleikarnir á laugardaginn eru hluti af kvennakvöldi Fróns, en um það leyti sem Jónas og Ritvélarnar stíga á stokk, kl. 23:30, opnar húsið fyrir sunnlenskum karlpeningi og þeim konum sem ekki voru á kvennakvöldinu. Plötusnúðurinn Gunnar Karl Ólafson, eða GayKay tekur svo við og klárar kvöldið á Fróni með stæl.

Jónas og Ritvélarnar voru á ferð og flugi í sumar. Til að mynda gerðu þau allt vitlaust á Eistnaflugi og komu við á Þjóðhátíð og víðar um verslunarmannahelgina. Í nóvember ætla þau svo að skunda um landið til þess að dreifa gleði og geggjaðri stemningu. Þau koma m.a. fram á Siglufirði, Akureyri, Bæjarbíói í Hafnarfirði og enda svo á Fullveldishátíð á Húrra í Reykjavík.

Sem fyrr segir opnar húsið kl. 23:30 fyrir almenning og er miðaverð kr. 2.500 kr.

Fyrri greinGuðni fjallar um ættir Árnesinga
Næsta greinEkkert ferðaveður milli Eyjafjalla og Klausturs