Vínyldraumur Helga Vals

Tónlistarmaðurinn Helgi Valur Ásgeirsson frá Hveragerði hefur farið af stað með söfnun á vefnum Karolinafund þar sem hann safnar fyrir útgáfu á nýjustu hljómplötu sinni á vínyl.

„Ég ólst upp í einsleitum, einangruðum smábæ og dreymdi um stærri heim. Heim þar sem húsin voru stærri, stúlkurnar dekkri og tónlistin háværari. Verandi smábæjarsnáði voru einu tengsl mín við alheimsþorpið fjölmiðlar og þá sérstaklega tónlist. Ég fékk þráhyggju fyrir vínyl plötum og ef ég átti einhvern auka pening þá keypti ég mér plötu. Mötley Crue sögðu mér frá stelpum og strákum sem reyktu inná klósetti og þýska speedmetal hljómsveitin Helloween kenndi mér að í stjórnmálum væri stundum best að kjósa ekki neitt,“ segir Helgi og bætir við að margar þær plötur sem hann keypti voru alveg skelfilegar en allar þó á einhvern hátt töfrandi.

„Á þessum tímum var tónlist vara, afurð jafnvel. Áþreifanleg eining hönnuð til að bjarga manni frá leiðindum meðalmennsku. Þú fjárfestir í tónlist. Tónlist var ekki bara einhver forritun í tölvu. Tónlistar áhugi var ferli. Þú þurftir að safna peningum, fara út í plötubúð, kaupa plötuna, fara heim, setjast niður, þefa af umslaginu, taka plötuna úr setja hana undir nálina og anda inn einhverjum nýjum tónum. Nú til dags nennir maður ekki einu sinni að streima lag sem einhver póstar á YouTube. Tæknin hefur rænt töfrum tónlistarinnar,“ segir Helgi sem líkt og vínyllinn missti sína fótfestu í lífinu um stund.

„Ég gekk í gegnum tímabil þar sem ég passaði ekki inn í lífið. Ég átti ekkert heimili, varð geðveikur, var lagður inn, giftist, skildi, varð háður alkóhólisti, bjó á áfangaheimili, missti vinnuna, bækurnar mínar og meira að segja öll fötin mín. Þetta er ekki nákvæmlega það sama og kom fyrir plötuna en ég fullvissa ykkur um að hún gekk líka í gegnum erfitt tímabil. En ég hef jafnað mig á mínum áföllum og vínylplötunni hefur líka vaxið ásmeginn. Geðveiki og kannabisfíkn tók burt minn metnað og sköpunargáfu og ég hætti nánast að semja tónlist í sjö ár,“ segir Helgi Valur en þegar hann hafði verið edrú í sex mánuði þá fór hann að greina tilfinningar sem hann taldi tapaðar.

„Tilfinningar jarðaðar undir grænu grasi og metnaður sem hafði molnað í lyfjamóki. Ég fór að greina aftur tilfinningar eins og þrá, reiði, skömm og aðrar tilfinningar sem ég þurfti að finna farveg fyrir. Enn sem fyrr sneri ég mér til tónlistar. Ég byrjaði að semja lög á fullu og taka upp og þegar ég stóð frammi fyrir spurningunni um hvernig ég ætlaði að skila þessari tónlist frá mér til umheimsins þá var aðeins eitt sem kom til greina. Ég vil færa tónlistina mína aftur til þessa áþreifanlega forms æsku minnar,“ segir Helgi að lokum.

Til þess að fjármagna verkefnið þarf Helgi að safna 2.500 evrum og getur fólk heitið á hann ýmsum fjárhæðum gegn því að fá allt frá tónleikamiðum upp í sérsamið lag þar sem nafnið þitt mun koma fyrir.

Vínyldraumur Helga Vals á Karolinafund

Fyrri greinHvítur kvígukálfur boðinn upp
Næsta greinMaria og Guðni Már sýna í Hveragerði