„Fólk gæti átt auðvelt með að misskilja okkur“

Pönkrokksveitin Elín Helena frá Selfossi sendi í dag frá sér sína fyrstu breiðskífu, „Til þeirra er málið varðar“. Útgáfan er hin glæsilegasta en platan er bæði gefin út á vínyl og geisladiski sem eru saman í pakka.

Gripurinn inniheldur átján lög og kennir þar ýmissa grasa en undirtónninn er alltaf pönk-pönk, þ.e. tvisvar sinnum meira pönk en venjulegt pönk.

Að sögn Vignis Andra Guðmundssonar, gítarleikara sveitarinnar, átti platan í upphafi að vera stuttskífa, tekin upp læf með hráu sándi en svo fór lögunum að fjölga og ekkert annað í stöðunni en að gefa út breiðskífu. „Fyrstu upptökurnar fyrir plötuna voru gerðar fyrir þremur árum síðan og hún er tekin upp á mörgum stöðum í Reykjavík, Skagafirði og á Suðurlandi, meðal annars í hlöðunni í Stekkum í Sandvíkurhreppi, Stúdíó Stekkar. Þar var magnarinn settur í gamla mjaltabásinn og allt hækkað í botn,“ segir Vignir í samtali við sunnlenska.is.

Blaðamaður settist niður með Vigni, Skúla Arasyni trommara og Eyjólfi Viðari Grétarssyni söngvara, en auk þeirra eru í hljómsveitinni þeir Daði Óskarsson söngvari og Sigurbjörn Már Valdimarsson bassaleikari en Helgi Rúnar Gunnarsson er sveitinni síðan til halds og trausts á gítar í nokkrum lögum.

Umfjöllunarefnið í textum Elínar Helenu er mjög fjölbreytt allt frá andstöðu við skattheimtu til bakháraraksturs og verðlagningar á smjöri.

„Fólk gæti átt auðvelt með að misskilja okkur og það gæti haldið að við meinum allt sem við segjum í textunum, þetta séu okkar innstu hugsanir. En auðvitað erum við að leika einhverjar persónur sem myndu segja svona hluti – þetta er eitthvað sem íslenskar steríótýpur myndu segja og þær geta verið mjög fjölbreyttar. Við gerum grín að steríótýpum, t.d. hvað Selfyssingar eru og hvað utangarðsfólk er og hvernig listamenn eru. Við grípum oft einhverja umræðu í samfélaginu sem er þversagnakennd og sjálfhverf þannig að hlustendur ættu alveg að kannast við þessa hluti,” segir Skúli.

Liðsmenn Elínar Helenu eru ánægðir með viðbrögðin við plötunni og tvö lög af henni hafa komist í spilun í útvarpi, nú síðast Bilaður rennilás sem þessa stundina situr í 23. sæti Vinsældarlista Rásar 2. Hægt er að hlusta á lagið með því að smella á hlekkinn neðst í fréttinni. „Við höfum verið að fá smá spilun bæði á X-inu og Rás 2 og það er bara ánægjuleg viðbót. Við áttum svosem ekki von á því að landsmenn væru mikið að fá sér pönk með kaffinu í morgunsárið þannig að þetta er mjög ánægjulegt.”

Elín Helena hefur verið iðin við spilamennsku að undanförnu og kemur meðal annars fram á Ellefunni næsta föstudagskvöld ásamt hljómsveitinni Muck. Meiri spilamennska er framundan og með sumrinu stendur til að halda útgáfutónleika á Selfossi. Nýja platan er fáanleg í öllum helstu plötuverslunum, meðal annars í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi. Elín Helena gefur plötuna út sjálf en Record-Records sér um dreifinguna.

Bilaður rennilás

Fyrri greinMinniháttar meiðsli í bílveltu
Næsta greinEngar spólur og engin egg