Lucy in Blue komst áfram

Hljómsveitin Lucy in Blue frá Reykjavík og Hveragerði komst í úrslit Músiktilrauna 2014 í kvöld, þegar 2. undankvöld tilraunanna fór fram í Norðurljósasal Hörpu.

Boðið var uppá mikið af rokki af öllum stærðum og gerðum, en ljúfir tónar einyrkja milduðu stemninguna þess á milli. Áhorfendur fengu því mikið fyrir sinn snúð og völdu að lokum hljómsveitina Captain Syrup áfram í úrslitin. Dómnefnd tilnefndi síðan Lucy in Blue áfram.

Lucy in blue er rokkhljómsveit sem fær mikinn innblástur frá psychedelic og progressive böndum sjöunda og áttunda áratugarins. Hljómsveitina skipa þeir Steinþór Bjarni Gíslason, gítar og söngur, Arnaldur Ingi Jónsson, hljómborð, orgel og bakraddir, Matthías Hlífar Pálsson, bassi og Kolbeinn Þórsson, trommur.

Hljómsveitirnar Milkhouse og Toneron fóru áfram á 1. kvöldinu, 30. mars, en þá áttu Sunnlendingar einnig fulltrúa á sviðinu, hljómsveitina The Roulette.

Þriðjudagskvöldið 1. apríl keppir hljómsveitin Alkul frá Selfossi og síðustu tvö sunnlensku böndin koma fram á fjórða og síðasta undankvöldinu, þann 2. apríl. Það eru hljómsveitirnar Raw og The Tension.

Fyrri grein„Við óðum í opnum skotum“
Næsta greinViðurkenndu tvö innbrot í Hvítahúsið