Jóladjassinn endurvakinn í Tryggvaskála

Kvartett Kristjönu Stefánsdóttur ætlar að endurvekja jóladjassstemmninguna sem margir sunnlendingar kannast við frá árum áður. Að þessu sinni verða tónleikarnir í Tryggvaskála þann 19. desember næstkomandi.

Árið 1996 kom út hljómdiskurinn Ég verð heima um jólin sem hljómað hefur á heimilum fjölmargra landsmanna á undanförnum árum. Jafnframt héldu Kristjana og félagar árlega jóladjasstónleika á Selfossi sem settu skemmtilegan blæ á jólaundirbúning margra. Undanfarin ár hafa þessir tónleikar ekki verið haldnir vegna anna meðlima kvartettsins, en að þessu sinni tókst að samræma dagbækur kvartettsins og blása til tónleikanna.

Kvartettinn skipa, auk Kristjönu, þeir Gunnar Jónsson á trommur, Smári Kristjánsson á bassa og Vignir Þór Stefánsson píanóleikari.

Eins og áður sagði verða tónleikarnir í Tryggvaskála 19. desember og hefjast kl. 21.00 .

Fyrri greinJohn Grant mælir með Vík í Mýrdal
Næsta greinSlökkviliðsmenn kynnast rafmagnsbílum