Magdalena heldur í Hljóðkútinn

Söngkeppni Menntaskólans að Laugarvatni, "Blítt og létt" var haldin fyrir fullu húsi sl. fimmtudag. Magdalena Katrín Sveinsdóttir frá Selfossi sigraði annað árið í röð.

Eftir að fjölbreyttri og vandaðri dagskránni var lokið stóð Magdalena uppi sem sigurvegari, en hún flutti lag hljómsveitarinnar The Police, Roxanne. Hún hóf því verðlaunagripinn Hljóðkútinn á loft öðru sinni, en hún bar einnig sigur úr býtum á síðasta ári. Í lokakeppninni á Akureyri í fyrra hafnaði hún í 3. sæti.

Í öðru sæti varð Fjóla Bergrún Sigmarsdóttir, sem flutti lag Arethu Franklin: Natural Woman og þriðja sætið tók Lovísa Guðlaugsdóttir með flutningi sínum á lagi Zedd(ar), Clarity. Þarna röðuðu stúlkur sér í þrjú efstu sætin í jafnri keppni.

Það voru einnig veitt verðlaun fyrir skemmtilegasta atriðið. Þar reyndist atriði Daða Geirs Samúelssonar (Daða og dúllanna) standa fremst, en það má segja að Daði hafi slegið í gegn með flutningi sínum á gríska Evrovisionlaginu Shake it.

Söngkeppnin hefur verið í tiltölulega föstum skorðum undanfarin ár og einn fastra liða er dans stúlkna í 4. bekk. Hann var á dagskrá sem fyrr og var þessu sinni einstaklega vel samhæfður og lauk með snúningi sem enginn átti von á. Það var nýmæli þessu sinni, að piltar í 4. bekk fluttu einnig eftirtektarvert dansatriði í grænum sokkabuxum.

Fyrri greinVestfirska gefur út „Undir hraun“
Næsta greinÞórsarar völtuðu yfir Skallagrím