Eyþór Ingi syngur alla vikuna

Í dag og næstu daga mun tónlistarmaðurinn og Eurovisionstjarnan Eyþór Ingi verða á ferðinni í Árborg og syngja fyrir skólabörn. Á föstudaginn verða síðan stórtónleikar með Eyþóri Inga og Atómskáldunum í íþróttahúsinu Iðu.

Eyþór Ingi mun syngja í öllum leik- og grunnskólum sveitarfélagsins. Hann mun auk þess vera með fyrirlestur og spjalla við áhugasama tónlistarmenn í ungmennahúsinu í Pakkhúsinu í vikunni sem og dæma í söngkeppni félagsmiðstöðvarinnar Zelsíuz.

Sigurvegarinn þar mun syngja á tónleikum Eyþórs Inga og Atómskáldanna á föstudagskvöld í Iðu en þar mun Eyþór Ingi m.a. syngja lög af nýrri plötu sem er að koma út í nóvember. Það er Körfuknattleiksfélag FSu sem stendur að tónleikunum í samstarfi við EB-kerfi. Auk Eyþórs Inga og Atómskáldanna munu kór FSu og Karítas Harpa stíga á stokk.

Embættisverk Eyþórs Inga eru þó ekki upptalin í Árborg í þessari viku því að á fimmtudagskvöld verður söngkeppni FSu haldin í Iðu og þar verður Eyþór Ingi einnig í dómarasætinu.

Fyrri greinMúlakot verður friðlýst
Næsta greinJól í skókassa hluti af jólaundirbúningnum