Álfheiður: Málefni fatlaðra í Árborg

Mér var boðið á afar góðan málefnafund Þroskahjálpar á Suðurlandi sl. mánudag en mér fannst yfirskriftin forvitnileg. Yfirskriftin var „Hvað verður gert í málefnum fatlaðs fólks á næsta kjörtímabili“.

Við í Áfram Árborg hugsum ekki í kjörtímabilum en lítum þess í stað til lengri framtíðar, sérstaklega þegar kemur að þjónustu og réttindum fatlaðs fólks.

Mig langar fyrst víkja að grundvallaratriðum. Það á að virða mannréttindi fatlaðs fólks, allt frá vöggu til grafar, sama um hvers kyns skerðingar er að ræða. Ég held við getum öll verið sammála um það.

Ísland undirritaði samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2007 en fullgilti hann ekki fyrr en 2016. Þetta tók níu ár.

Markmiðið með þeim samningi er að fatlað fólk njóti mannréttinda og frelsis til jafns við alla aðra. En einnig að tryggja beri réttindin og frelsi fatlaðs fólks og vernda þau.

Í apríl sl. voru svo loksins samþykkt lög á Alþingi um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, þar sem kveðið er skýrt á um réttinn til sjálfstæðs lífs, um notendastýrða persónulega aðstoð eða NPA og samráðsskyldu stjórnvalda við fatlað fólk og hagsmunasamtök þeirra.

Ég vil leggja sérstaka áherslu á samráðsskyldu stjórnvalda sem nú er lögbundin þó lögin taki ekki gildi fyrr en í haust. Sveitarfélaginu ber nú skylda til að leita samráðs við fatlað fólk og hagsmunasamtök þeirra. Það er ekkert val. Engar ákvarðanir um okkur, án okkar. Frá og með hausti verður það skýrt lögbrot að taka ákvarðanir sem taka til fatlaðs sólks án samráðs við það og hagsmunasamtök þeirra. Þetta er mikil réttarbót.

Við í Áfram Árborg erum ánægð með þessar réttarbætur fatlas fólks og aðstandenda þeirra og erum fyllilega sammála þeim metnaðarfullu markmiðum sem sett hafa verið.

En þetta hefur verið löng og ströng barátta fyrir réttarbótum. Barátta Þroskahjálpar, Öryrkjabandalagsins, aðstandenda og ekki síst ötul barátta fatlaðs fólks hefur skilað okkur hingað.

Grundvallarmannréttindi voru upphaflega skilgreind sem rétturinn til lífs. Það var þá fyrst og fremst matur og skjól. En á 21. öldinni þá eru mannréttindi ekki bara rétturinn til lífs heldur réttur til að lifa lífinu. Þar er stór munur á.

Að lifa lífinu.

Að geta sinnt grunnþörfum án þess að reiða sig á aðstoð frá fjölskyldu og vinum. Að taka virkan þátt í samfélaginu. Að geta menntað sig, starfað, sinnt tómstundum, stundað menningu og félagslíf af hvaða tagi sem er. Að geta búið sjálfstætt og eignast fjölskyldu.

Að lifa lífinu.

En snúum okkur þá að því sem við í Áfram Árborg ætlum að gera.

Fyrsta verkefnið er að Árborg kanni áhuga fatlaðs fólks fyrir NPA. Úfærslan verði í samráði við notendur, aðstoð við utanumhald og fræðsla verði með myndarbrag.

Í annan stað verður að tryggja aðgengi fatlaðs fólks að þjónustu en einnig upplýsingum um hana.

Á vefsíðu Árborgar er varla að finna staf um réttindi og þjónustu við fatlað fólk.

Vefviðmótið er einnig slæmt fyrir sjóndapra, það er ekki boðið upp á að stækka letur eða upplesinn texta.

Þetta er hvorttveggja svo sjálfsagt mál árið 2018 að mér var ekki skemmt þegar ég skoðaði vefinn.

Þessu til viðbótar er erfitt aðgengi að ráðhúsi sveitarfélagsins. Það er hár gagnstéttarkantur við innganginn. Það er rampur beint fyrir framan innganginn en hann er bílastæði fyrir fatlað fólk. Ef bíll er í stæðinu, þá þarf fólk sem notar hjólastól að fara til hliðar við húsið þar sem er rampur en hann er alveg ómerktur. Þú þarft helst að vera skyggn til að vita af honum þarna langt frá.

Það er auðvitað margt fleira sem þarf að gera. Uppbygging fjölbreyttra búsetuúrræða er mjög brýn, liðveisluna þarf að efla. iðveislu, akstursþjónustu, heimaþjónustu og stuðning við aðstandendur. Öll þessi verkefni verður að útfæra og framkvæma í samráði við fatlað fólk svo þjónustan mæti þörfum þeirra en ekki fjárhag sveitarfélagsins.

En talandi um fjármagn, það verður að krefjast fjármagns frá ríkinu til að sveitarfélagið hafi tök á að sinna lögbundinni þjónustu við fatlað fólk.

Ég þekki það vel sjálf sem fv.embættismaður hjá Reykjavíkurborg að þetta er stanslaust stríð við ríkið um fjármögnun. Og það þýðir ekkert að senda bréf á hálfs árs fresti eða sitja fundi í ráðuneytinu ársfjórðungslega. Það þarf stöðugt að knýja dyra og það ætlum við í Áfram Árborg svo sannarlega að gera.

Og við erum með unga fólkið með okkur í liði því ég fékk langan lísta frá 5.JEM í Sunnulækjarskóla og þeim er hugleikin þjónusta og aðgengi fyrir fatlað fólk. Þau segja að hjálparstangirnar passi ekki inni á salernum og lyftan í Vallaskóla er biluð.

Ég spjallaði líka heillengi við konu starfar á VISS en vill fá að vita af hverju hún fær svona lág laun fyrir vinnu sína þar og að henni fyndist þetta mannréttindabrot. Við ætlum í sameiningu að skoða þetta frekar. Það eru því augjóslega brýn verkefni framundan og við í Áfram Árborg hlökkum til að takast á við þau í samráði og samvinnu við fatlað fólk og aðstandendur þeirra.

Ég vil þakka Þroskahjálp á Suðurlandi kærlega fyrir þennan þarfa fund og vona að þau haldi áfram sínu óeigingjarna starfi.

Álfheiður Eymarsdóttir,
skipar 2. sæti á lista Bæjarmálafélagsins Áfram Árborg.

Fyrri grein„Ég er ótrúlega ánægður með þær“
Næsta greinHamar byrjar á sigri – KFR tapaði