G-listinn – Framboðslisti um framsýni og fyrirhyggju

Undirritaður oddviti G-listans í Grímsnes- og Grafningshreppi hefur í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna skrifað blaðagreinar í Dagskrána og Suðra.

Þessa grein hér mætti líta á sem sjálfstætt framhald af þeim greinum, og leyfi ég mér að vísa til þess sem þar kemur fram um erindi G-listans við kjósendur, auk samantektar um stefnumálin hér á eftir.

Ný málefni eru reifuð í þessari grein í fyrstu, en svo tekur við samantekt á helstu stefnumálum G-listans. Tilgangurinn er að sjálfsögðu að auðvelda fólki að gera upp hug sinn með hliðsjón af því sem við höfum fram að færa – þótt hitt sé víst að trúverðugleiki frambjóðendanna vegi jafnan þyngst, þegar til kastanna kemur.

Um Sólheima
Það gilda í okkar samfélagi lög um málefni fatlaðra, rétt eins og alls staðar annars staðar. Hins vegar hljóta þessi málefni að hafa tiltölulega meiri fyrirferð hlutfallslega í okkar litla samfélagi. Að því viljum við hjá G-listanum gjarnan hyggja, og það er einbeittur vilji til þess hjá G-listanum að vel sé staðið að þeim hlutum sem sveitarfélagið hefur um að segja og með að gera. Það gildir um ferðaþjónustu og liðveislu við heimilismenn á Sólheimum. Við erum svo lánsöm hjá G-listanum að hafa um borð manneskju sem vinnur á Sólheimum og er öllum hnútum kunnug. Fleiri snertifleti við nærsamfélags og Sólheima mætti trúlega búa til, ef vilji væri til og jákvæðara andrúmsloft ríkti. Hugmyndir hafa verið viðraðar í okkar hópi um að nýta ennþá markvissar tækifærin sem skapast í sveitinni vegna fjölþættrar starfsemi Sólheima, í vinnustofum um list, handverk og afþreyingu. Þar er t.d. hægt að horfa til eldra fólks og skólabarna. Mundi ekki slík tenging eyða fordómum og firringu, efla samgang við heimilisfólk, undirbúa jarðveginn fyrir innihaldsríkara uppeldisstarf?

Markmið og stefnumál G-listans eru þessi helst:

1. Almenn atriði
að taka þátt í sveitarstjórninni.
að taka yfirvegaða og málefnalega afstöðu til þeirra álitamála sem upp kunna að koma – og umfram allt skynsamlega.
að vanda sig við rekstur sveitarfélagsins, rétt eins og hagsýn húsmóðir eða gróinn bóndi.
að taka ekki kollsteypur eða reisa glæfralega loftkastala, en vaka um leið yfir tækifærum til að bæta samfélagið og laða þannig að fólk sem vildi gjarnan lifa hér og starfa
að rasa ekki um ráð fram með sölu lands og eigna
að skapa hér sannkallað gæðasamfélag, þar sem eftirsótt yrði að lifa og starfa
að varðveita menningu og hefðir og styðja við félagsstarf sem hér hefur skotið rótum
að taka þátt í lýðheilsuverkefnum fyrir alla aldurshópa
að huga að styttingu vinnuvikunnar og sveigjanleika vinnutímans á vinnustöðum sveitarfélagsins og auka þannig lífsgæði fjölskyldnanna
að standa undir nafni sem framboð um framsýni og fyrirhyggju

2. Skólamál
að standa vel að málum í stærsta og viðkvæmasta viðfangsefni sveitarfélagsins
að líta svo á að skólinn sé hjartað í samfélaginu
að tileinka sér þá meginhugsun að samkennsla árganga sé ekki vandræðalegt hallærisástand, heldur tækifæri til fjölbreyttra kennsluhátta og einstaklingsmiðaðs náms.
að keppast við að manna stöður í skólanum með réttindafólki, konum og körlum.
að tryggja að húsnæði sé til staðar í sveitarfélaginu í þessu skyni, helst í göngufæri við skólann

3. Æskan
að tryggja öflugt æskulýðsstarf
að efla hag barnafjölskyldna
að framtíðarsýn G-listans um gjaldfrjálsan leikskóla verði að veruleika – í rökréttu framhaldi af því að litið sé á leikskóla sem fyrsta skólastigið

4. Ellin
að gera öldruðum kleift að eyða ævikvöldinu í heimabyggð, takmarka hreppaflutninga og fyrirbyggja sýsluflutninga gegn þeirra óskum
að einstaklingsmiða þjónustu við eldri borgara eftir þörfum og aðstæðum
að stuðla að þátttöku aldraðra í félagsstarfi og heilsueflingu
að gefa ellilífeyrisþegum kost á gjaldfrjálsum aðgangi að sundlaug og heilsurækt

5. Opin stjórnsýsla
0. að fara ævinlega að settum reglum
1. að gæta jafnræðis
2. að auglýsa allajafna og óska eftir tilboðum í stærri verk og eignir
3. að taka hagstæðustu tilboðum eða engum
4. að láta menn ekki standa frammi fyrir gerðum hlut æ ofaní æ.
5. að skrifa reglulega greinar á Fjasbók eða í Hvatarblaðið um dægurmálin og fyrirætlanir G-listafólks
6. að hafa samráð í grasrótinni – það er undirstöðuþáttur í fyrirætlunum G-listafólks um opnari stjórnsýslu og lýðræðisleg vinnubrögð

6. Atvinna og þjónusta
að nýta betur tækifæri til atvinnusköpunar í ferðaþjónustu og afþreyingariðnaði
að tryggja friðsamlega sambúð allra undirstöðugreina í atvinnulífi sveitarinnar
að viðurkenna í verki jafnan rétt hefðbundinna atvinnugreina og nýrra

Miklu fleira um stefnumál G-listans er hægt að lesa í blaðagreinum sem vitnað er til hér að ofan og á Fjasbókarsíðu G-listans – og enn mun birtast safaríkt efni á þeim vettvangi allt fram á kjördag. Að samanlögðu ætti þetta að gefa glögga mynd af stefnumálum G-listans, ásamt því að kynna rækilega fólkið sem skipar listann, lífshlaup þess og leik og störf – og umfram allt þátttöku þess í félagsstörfum og ástæður þess að það býður sig nú fram til ábyrgðarstarfa.

Bjarni Þorkelsson, oddviti G-listans

Fyrri greinSelfyssingar sigursælir á sundmóti
Næsta greinTveir sunnlenskir skólar fengu styrki