Haustið fer vel af stað

Selfosskirkja. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Starfsemi Krabbameinsfélags Árnessýslu fer vel af stað eftir gott sumarfrí. Stjórnin hefur fundað, hugmyndabankinn er stútfullur svo nú er bara að fara að framkvæma.

Við ætlum að bera Bleikum október hátt undir höfði og taka virkan þátt í átaksverkefni Krabbameinsfélags Íslands gegn krabbameini. Bleika slaufan er alþjóðlegt tákn brjóstakrabbameins og hefur samkeppni um íslenska hönnun hennar verið haldin síðstu ár. Ása Gunnlaugsdóttir, gullsmiður er hönnuður Bleiku slaufunnar 2017 sem verður afhjúpuð 29. september. Bleiku slaufuna verður hægt að kaupa í flestum verslunum auk þess sem hún fæst á netverslun Krabbameinsfélags Íslands. Við hvetjum alla, bæði fólk og fyrirtæki í Árnessýslu til að taka virkan þátt í Bleikum október með allskonar bleikum uppákomum og lita bæinn bleikan.

Krabbameinsfélag Árnessýslu hefur sett sér það markmið að auka þjónustu við félagsmenn sína í heimabyggð. Við vitum af eigin reynslu að ferðalög yfir Hellisheiði eru álagsþáttur í sjúkdómsferlinu og viljum við draga úr því álagi með því að bjóða uppá þjónustuna á Selfossi. Félagar í Krabbameinsfélagi Árnessýslu eiga rétt á stuðningi, fræðslu, sál-og félagslegri ráðgjöf, lögfræðiráðgjöf og fjárhagslegum stuðningi vegna ýmiss kostnaðar sem fellur til í ferlinu. Félagsgjaldið er einungis tvöþúsund og fimmhundruð krónur á ári og er því ávinningurinn mikill að gerast félagi. Við hvetjum alla sem vilja styrkja starf félagsins að gerast félagar og stuðla þannig að aukinni og góðri þjónustu í heimabyggð.

Það gleður Krabbameinsfélag Árnessýslu mikið að geta sagt frá því að aukin þjónusta verður í boði á Heilsugæslu Suðurlands á Selfossi frá byrjun október. Lyflækningadeildin hefur fengið aukið fjármagn frá ríkinu sem gefur kost á því að hafa deildina opna fimm daga vikunnar í stað þriggja sem verið hefur. Tólf hjúkrunarfræðingar hafa hlotið aukna þjálfun er snýr að lyfjameðferð krabbameinssjúkra og gefst því tækifæri til að veita lyfjameðferðir á Selfossi. Björn Magnússon yfirlæknir lyflækningadeildarinnar segir þetta framfaraskref í átt að bættri þjónustu og áfram verði lögð áhersla á að bæta aðstöðu og þjónustu við krabbameinssjúklinga og aðstandendur þeirra í heimabyggð.

Næstkomandi sunnudag, 1.október verður Bleik messa í Selfosskirkju í tengslum við Bleikan október. Félagar úr Krabbameinsfélagi Árnessýslu munu taka þátt í messunni og aðstandandi segir frá reynslu sinni og upplifun. Í lok messu verður súpa til sölu í safnaðarheimilinu og mun allur ágóði sölunnar renna til félagsins. Við hvetjum því alla til að byrja góðan sunnudag á fallegri og notalegri messu í Selfosskirkju.

Í tengslum við bleikan október munu reglulega birtast greinar frá félaginu á frétta- og samfélagsmiðlum. Við hvetjum alla til að hafa samband við félagið ef einhverjar spurningar vakna eða óskað er eftir þátttöku í félaginu. Við erum á facebook undir nafninu Krabbameinsfélag Árnessýslu, við erum með netfangið arnessysla@krabb.is og við erum í síma 788-0300.

Fyrir hönd Krabbameinsfélags Árnessýslu,
Svanhildur Ólafsdóttir, formaður.

Fyrri greinUnnið að stækkun Álfheima
Næsta greinRøst tók niðri við Land­eyja­höfn