Viltu vita leyndarmál?

Leturstærð: Decrease font Enlarge font
image Fjölgun íbúa og ferðamanna og aukin umsvif atvinnulífsins kalla á bættar samgöngur. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ef þú gætir stundað skemmtilegt og skapandi háskólanám þar sem þú öðlast lögverndað starfsheiti að þremur og hálfu ári loknu og gengir því sem næst að vel launuðu starfi vísu eftir útskrift, myndirðu ekki velta þeim möguleika fyrir þér?

Tæknifræði er fag sem kemur við sögu í næstum öllum athöfnum daglegs lífs í nútíma þjóðfélagi. Viðfangsefni tæknifræðinga eru ótrúlega fjölbreytt og á meðan á námi stendur byggja nemendur upp verkvit, fræðilega fagþekkingu og tengsl við atvinnulífið sem þeir búa að lengi.  

Tæknifræðingar framtíðarinnar bíða ótal úrlausnarefni. Fjölgun íbúa og ferðamanna og aukin umsvif atvinnulífsins kalla á bættar samgöngur. Koma þarf vatni frá veitu til notenda og síðan óhreinu vatni frá notanda og það er nauðsynlegt að minnka mengun af völdum örplasts. Við þurfum að nýta tækifærin sem felast í því að vera lítil þjóð með mikla endurnýjanlega orku og sýna frumkvæði á því sviði. Það þarf að koma í veg fyrir myglu í húsum og byggja ódýrara og hagkvæmara húsnæði svo að fleiri geti keypt sér þak yfir höfuðið. Ekkert af þessu gerist af sjálfu sér heldur þarf fólk með sérhæfða menntun og það er mikil eftirspurn eftir því fólki. Til að viðhalda samfélaginu þarf ákveðinn fjölda tæknimenntaðra á hverju sviði en til að geta bætt og þróað þarf að mennta enn fleiri en við höfum gert hingað til. Við í tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík gerum okkar besta til að nemendur séu reiðubúnir að takast á við þau fjölbreyttu verkefni sem bíða tæknifræðinga sem koma út á vinnumarkaðinn. Hægt er að velja á milli náms í byggingartæknifræði, rafmagnstæknifræði og vél- og orkutæknifræði. 

Útskrifaðir tæknifræðingar frá tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík hafa val um vel launuð störf á sínu áhugasviði eða að halda áfram í meistaranámi síðar meir og öðlast þá lögverndað starfsheiti sem verkfræðingar. Það er ekki að ósekju að nám í tæknifræði hefur verið kallað best geymda leyndarmálið í íslenska menntakerfinu. Hægt verður að kynna sér námið betur á opnu húsi þann 1. júní nk. kl. 17:30 og við hvetjum alla áhugasama til að mæta.

Maí 2017
Aldís Ingimarsdóttir, aðjúnkt á byggingarsviði við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík
Hera Grímsdóttir, sviðstjóri byggingarsviðs tækni-og verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík

  • email Senda frétt
  • print Prentvæn útgáfa
  • Plain text Einfaldur texti