Ari Trausti: Vor í lofti

Í gamla tímatalinu var fyrsti sumardagur boðberi hækkandi sólar og betri tíðar með blóm í haga. Oftast var vorið þó varla vaknað en það sjáum við að þessu sinni gerast fyrstu vikur í maí.

Veturinn var fremur mildur að jafnaði og í nokkru samræmi við hlýnandi veðurfar á heimsvísu. Náttúran býður samtímis upp á óvænta atburði eins og nýlegan jarðskjálfta skammt frá Árnesi, samt með öllu eðlilegan vegna spennulosunar í Suðurlandsskjálftabeltinu. Sömu augum getur verið að við munum bráðum líta eldgos í þeim fjórum megineldstöðvum sem allar sýna merki innri spennu og jafnvel upphitunar: Bárðarbungu, Kötlu, Heklu og Grímsvatna. Eins og ávallt fyrr, vonum við að eldsumbrotin valdi sem minnstum vandræðum og tjóni.

Á Alþingi hefur veturinn liðið án stórra frétta. Stjórn og stjórnarandstaða takast á, oftast vel málefnalega og ná jafnvel saman eins og við afgreiðslu frumvarps um farþega- og farmflutninga, þar með talið almenningssamgöngur. Stóru bitbeinin krefjast meiri átaka. Þau eru til að mynda ríkisfjármálaáætlun og rammaáætlun, áætlun um orkuskipti, virðisaukaskattur á ferðaþjónustu, samgönguáætlun og stefnan í heilbrigðis- og menntamálum svo nokkuð sé nefnt. Ekki er vitað hvenær þingi lýkur en gera má ráð fyrir þing sitji fram í júnímánuð. Erfitt er að benda á umtalsverðar framfarir í málefnum Suðurkjördæmis, um fram það sem samþykkt var með fjárlögum fyrir 2017, án aðkomu ríkisstjórnar. Þar liggur á mörgu, svo sem frekari vegabótum, úrbótum í heilbrigðismálum, á ferðamannastöðum, í menntamálum og velferðarmálum. Því miður eru núverandi stjórnvöld afar treg til að afla fjár til bráðnauðsynlegra aðgerða og um það deila stjórnarliðar og við hin.

Hvað sem pólitíkinni líður er ástæða til að gleðjast yfir vor- og sumarkomunni og hyggja vel að umhverfi til sjós og landa og að dýrum og fólki. Öll höfum við ólíkar aðstæður að kljást við og margar væntinganna verða aðeins að veruleika með samhjálp. Ég hef náð að skjótast hingað og þangað í kjördæminu í eftir að þinghald hófst í haust. Heimsóknirnar hafa verið ánægjulegar og ég þakka móttökur og fundi. Varla má slá slöku við því nú stefnir í sveitastjórnarkosningar næsta vor og að nýjum fjárlögum í haust. Ég sendi góðar vor- og sumarkveðjur í kjördæmið allt, frá Garðskagavita til Hornafjarðar, frá efstu sveitum Suðurlands suður til Víkur.

Ari Trausti Guðmundsson er 6. þingmaður Suðurkjördæmis, fyrir VG

Fyrri greinSunnlendingar komu, sáu og sigruðu – Myndband
Næsta greinAndlát: Már Sigurðsson