Erna J: Til hamingju Flóahreppur!

Vinkona mín var rekinn í gær. Eftir þriggja ára fórnfúst starf var hún kölluð inn á skrifstofu yfirmanns síns og fimm mínútum seinna var hún orðin atvinnulaus og fjölskylda hennar húsnæðislaus þar sem húsið sem hún býr í fylgir starfinu.

Ekkert: „mér þykir það leitt“, „þú hefur unnið gott starf en…“, „leiðinlegt að þetta fór svona“, ekki neitt, engin viðvörun, ekkert samtal… bara bless. Sveitastjórn gaf sér ekki einu sinni tíma til þess að ræða við hana, heyra hennar hlið á málinu og finna lausn áður en þau köstuðu henni út í kuldann.

Anna Greta, vinkona mín er skólastjóri Flóaskóla og að mínu viti má sveitastjórn ekki reka hana á þennan hátt samkvæmt lögum en þau gerðu það samt. Anna Greta sinnti starfi sínu eftir bestu getu og gerði að mínu viti ekkert sem telja má sem sök til brottrekstrar.

Ég veit að Anna Greta bar hag skólans alltaf fyrir brjósti, ég veit að hún gerði breytingar á skólastarfinu því að hún vildi að starfið myndi þróast og verða betra. Hún vildi halda skólastarfinu lifandi og opnu því þannig opnast möguleikar á nýjum tækifærum. Til dæmis var hún við það að koma á fót risastóru samstarfsverkefni á milli skóla á Suðurlandi í tengslum við smiðjur. Það má einnig benda á að rekstur skólans kom út á núlli fyrir síðasta skólaár, ég held að það teljist vera nokkuð góður árangur.

Þrátt fyrir m.a. stanslaust áreiti og ég leyfi mér að segja einelti frá hendi sveitastjóra (sem á að vera hennar stuðningsmaður og helsti bakhjarl), tilefnislausar barnaverndartilkynningar og slæmt umtal frá sveitungum hélt hún ótrauð og æðrulaus áfram því að hún vildi sinna vinnunni sinni fyrir skólann sinn sem henni þykir vænt um og ber virðingu fyrir.

Anna Greta er hörkudugleg, samviskusöm og með sterka réttlætiskennd. Hún vill fara eftir settum lögum og reglum eins og á að gera. Hún vill að starfsfólk og nemendur beri virðingu fyrir skólanum sínum, tali vel um hann og líði vel þar.

Skólinn er í litlu samfélagi og er ein af aðalstofnunum sveitarfélagsins og stærsti vinnustaður þess. Með þessari ákvörðun sveitastjórnar er allt skólastarf í óvissu, allt það starf sem Anna Greta og starfsfólk skólans hefur unnið hörðum höndum að gæti verið fyrir bý og það kæmi mér ekki á óvart ef mikið af góðu starfsfólki skólans segði upp störfum sínum í mótmælaskyni við þessa ákvörðun sveitastjórnar.

Ég hef alltaf lagt mig fram við það að sjá það góða í fólki, hafa trú á því að allir séu að gera sitt besta. En ég missti trúna í dag þegar vinkona mín hringdi í mig og sagði mér að hún hefði verið rekinn.

Það á enginn skilið svona framkomu!

Ég veit að maður kemur í manns stað en þessi uppsögn er ófagleg, órökstudd, ómálefnaleg og beinlínis persónuleg. Mér finnst einnig ólíklegt að sveitastjórn finni manneskju sem er tilbúin að vinna undir svona vinnubrögðum og eiga á hættu á því að missa vinnunna með þessum hætti.

Ég krefst þess að sveitastjórn útskýri þessa ákvörðun sína með faglegum röksemdum og ég krefst þess að Eydís sveitastjóri segi af sér!

Til hamingju sveitastjórn Flóahrepps með þessa stórkostlegu skitu lengst upp á hnakka!

Erna Jóhannesdóttir
íbúi í Flóahreppi

Fyrri greinBikarveisla á Selfossvelli
Næsta greinAnna Birna í ársleyfi