Arnar Páll: Viðreisn unga fólksins, Viðreisn okkar allra

Menntun og aukin þekking einstaklinga hefur ávallt haft jákvæð áhrif á velferð og efnahagslegan stöðugleika í samfélagi okkar.

Segja má að menntun sé forsenda framþróunar og nýsköpunar í nútímasamfélagi. Menntunarstig Íslendinga hefur aukist jafnt og þétt síðustu áratugina og hefur þessi jákvæða breyting haft ýmsa kosti í för með sér fyrir land og þjóð. Samkvæmt tölum frá OECD frá árinu 2001 höfðu 40% Íslendinga, á aldrinum 25-64 ára lokið framhaldsskólaprófi og 23% höfðu menntun á háskólastigi.

Mikil og jákvæð breyting hefur orðið á þessum tölum síðustu árin, en árið 2010 var hlutfall þeirra sem lokið höfðu framhaldsskólaprófi komið í um 67% og þeirra sem lokið höfðu háskólaprófi komið í um 33%. Telja má að skýringin á þessum breytingum sé tvíþætt, annarsvegar sú að eftir efnahagshrunið, sem átti sér stað á haustmánuðum ársins 2008, var rík áhersla lögð á að sem flestir nýttu sér það tækifæri á að fara í nám, þar sem atvinnumöguleikar voru af skornum skammti og hins vegar hefur áhersla á vægi menntunar almennt aukist mikið frá því sem áður var.

Á árum áður þótti ekki eins mikilvægt að ungt fólk gengi menntaveginn, þar sem atvinnutækifæri, lífsviðhorf og lífsgildi voru önnur en nú og jafnframt voru tækifæri og fjölbreytileiki til náms af skornum skammti. Viðhorfsbreyting Íslendinga síðustu ára og áratuga hefur gert það að verkum að nú er Ísland með eitt hæsta innritunarhlutfall allra OECD landa í fræðilegt háskólanám. Við Íslendingar getum verið stoltir af þessari niðurstöðu, en verðum í framhaldi að spyrja okkur þeirra spurningar, hverjir eru atvinnumöguleikar námsmanna að loknu háskólanámi á vinnumarkaði í dag?

Breytingar á vinnumarkaði í kjölfar hruns
Miklar breytingar hafa átt sér stað á íslenskum vinnumarkaði síðustu árin. Á árunum fyrir hrun var mjög auðvelt fyrir háskólamenntaða einstaklinga, jafnt nýútskrifaða sem margreyndra, að finna sér atvinnu við hæfi menntunar sinnar, þar sem hjól atvinnulífsins og vinnumarkaðurinn almennt voru í mikilli sókn.

Á haustmánuðum ársins 2008 breyttust þessar aðstæður á örskotstundu þegar stór hluti af fjármálakerfi landsins hrundi á einni nóttu og afleiðingin var efnahagshrun. Efnahagsþrengingar hafa ávallt margvísleg áhrif á bæði atvinnulíf og vinnumarkað almennt. Stærsta breytingin sem orðið hefur á síðustu árum er sú að nú hefur reynst mjög erfitt fyrir ungt fólk, sem nýlokið hefur háskólanámi, að finna sér atvinnu við hæfi.

Talið hefur verið að ástæðan fyrir þessari breytingu sé sú að eftir því sem framboð af háskólamenntuðu starfsfólki eykst á vinnumarkaðnum er eðlilegt að samkeppni og kröfur aukist. Aðrir halda því fram að þessi skýring sé of mikil einföldun og telja að ástæðan sé sú að fyrirtæki og stofnanir hafa nú, í ríkum mæli, lagt meiri áherslu á reynslu og þekkingu þegar kemur af hæfniskröfum í auglýst störf, sem hefur leitt til þess að vægi menntunar hefur dvínað. Þessi staða er mjög slæm, þar sem markmið allra sem leggja á sig langt og krefjandi háskólanám er að fá starf tengt sinni menntun að námi loknu og komast í betri stöðu fjárhagslega. Þessi erfiða staða gerir það að verkum að oftar en ekki leiðast nýútskrifaðir einstaklingar í störf algerlega ótengd því námi sem þeir lögðu á sig, eða jafnvel fara í fyrra starf til þess eins að geta staðið við sínar skuldbindingar. Eins og allir vita þá er mjög kostnaðarsamt að fara í langskólanám og því er mjög mikilvægt að þeir einstaklingar sem leggja það á sig fái starf við hæfi sem fyrst eftir útskrift.

Hvað er til ráða?
Viðreisn hefur lagt til að efla skuli það samstarf sem til staðar er á milli háskóla og atvinnulífsins, með það að markmiði að skapa betri umgjörð fyrir nýsköpunar og frumkvöðlastarfssemi. Einnig hefur Viðreisn tekið það til skoðunar hvort að hægt sé að efla þetta samstarf enn frekar, með það að markmiði að gera starfsnámi hærra undir höfði í háskólum landsins, til þess að nemendur öðlist einhverja reynslu við sérsvið sitt áður en á vinnumarkað er komið. Með þessum aðgerðum væri hægt að koma betur til móts við kröfur atvinnulífsins um aukna reynslu nemenda, sem og að gera þá nemendur eftirsóknarverðari starfskrafta að námi loknu.

Ef ekkert verður að gert þá er sú hætta raunveruleg að sú nýbreytni, frumkvöðlastarfssemi og sú þekking sem verður til í háskólasamfélaginu hverfi úr landi, þar sem atvinnutækifæri eru ekki til staðar hér á landi. Þessi aðferð hefur verið stunduð hjá nágrannaþjóðum okkar, til að mynda í Svíþjóð þar sem þessi aðferð nefnist (YH-nám) og hví skildi hún ekki virka hér. Jafnframt væri hægt með þessari aðferð að takmarka það brottfall sem á sér stað í háskólum landsins, þar sem nemendur gætu starfað að hluta til við sitt nám samhliða skólagöngu og ættu því mun auðveldara með að átta sig á hvort að það nám sem þeir ástunda eigi við eða ekki. Með þessum úrræðum sýnum við viljann í verki og göngum þannig á undan með góðu fordæmi til framtíðar litið.

Arnar Páll Guðmundsson, viðskiptafræðingur
skipar 14. sæti á lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi

Fyrri greinVon á rigningu og vatnavöxtum
Næsta greinIngibjörg kvödd eftir farsælt starf