Kristín Trausta: Samgöngur

Styrking innviða er eitt aðalmálið í kosningabaráttu okkar Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi.

Við viljum efla heilbrigðisþjónustu enn frekar, við viljum efla löggæslu og auka öryggi í samgöngumálum. Á þessu kjörtímabili hefur verið haldið vel á ríkisfjármálum og það veitir okkur nú tækifæri til að byggja upp og styrkja innviði samfélagsins.

Samgöngur eru mikilvæg undirstaða atvinnulífs, ferðaþjónustu og samkeppnishæfni byggðarlaga allt í kringum landið. Fjárfestingar í innviðum styrkir bæði atvinnulíf og búsetu ásamt því að þjóna bæði okkur, íbúunum, og ferðamönnum. Samkvæmt stefnuskrá okkar viljum við veita stórauknu fjármagni í vegakerfi landsins sem látið hefur á sjá, þar sem aukin burðargeta og stytting vegalengda verði markmið. Við viljum einnig fá tækifæri til að halda áfram að fækka einbreiðum brúm á hringveginum.

Stóraukin umferð er á helstu ferðamannastöðum landsins og þarf að fara í gagngerar endurbætur til að bæta umferðaröryggi víða á vegum landsins. Vegurinn upp að Gullfossi og Geysi sem er einn fjölfarnasti vegur utan þjóðvegar er ekki í góðu ástandi og má laga þar bæði merkingar og breikka vegi. Víða er komið að lagfæringum á sveitavegum um allt kjördæmið.

Ég sé fyrir mér að hægt verði að fara í lagfæringar á veginum um Kjöl til að stytta leiðina á milli Suður- og Norðurlands. Mun þessi framkvæmd gera það að verkum að auðveldara verður fyrir innlenda sem og erlenda ferðamenn að komast inn á hálendið og njóta fleiri staða á okkar fallega landi. Á þessum vegi er nú þegar mikil umferð og allur gangur á því hversu greiðfær hann er. Ég hef nokkrum sinnum farið þessa leið og er það góð tilbreyting frá hefðbundinni norður-/suðurleið, en það er mjög misjafnt hversu vondur vegurinn er. Lítið sem ekkert viðhald hefur verið á veginum síðustu ár.

Með endurbótum á Kjalvegi getur samstarf á sviði verslunar og þjónustu aukist mikið á milli suður- og norðursvæðis. Ferðamannatímabilið inn á hálendið gæti lengst við þessa framkvæmd og fjölbreytnin á sviði ferðaþjónustu aukist.

Stytting leiðar á milli landssvæða er að mínu viti af hinu góða og Kjalvegur greiðir leiðina á milli Suður- og Norðurlands. Endurbættur vegur yfir Kjöl mun létta á þjóðveginum þar sem umferðin hefur aukist stórlega síðustu ár og eflir enn frekar tengsl á milli þessara landssvæða.

Kristín Traustadóttir
skipar 5.sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi

Fyrri greinSkjálftar í Mýrdalsjökli
Næsta greinGervigrasinu skipt út í Hveragerði