Töðugjöld á Hellu um helgina!

Nú er komið að hinum árlegu Töðugjöldum á Hellu en þau hafa verið haldin óslitið frá árinu 1994. Hátíðin í ár er hin glæsilegasta og mikið lagt upp úr því að viðburðir séu fyrir alla fjölskylduna.

Góð tjaldsvæði eru í Rangárþingi ytra og því um að gera að nýta eina af síðustu helgum sumarsins til útilegu. Hella er mjög vel staðsett og því líka möguleiki að skreppa á hátíðina og aftur heim um kvöldið.

Hátíðin byrjar á föstudegi þar sem listaverk verður afhjúpað á Hellu, umhverfisviðurkenning UMFÍ verður veitt á Laugalandi og svo hið sívinsæla þorpararölt um kvöldið. Þorpararöltið fer um græn/appelsínugulahverfið og verður kveikt á ljósi fyrir utan þau hús sem bjóða heim. Hverfaskiptingin er aðgengileg á Facebook-síðu Töðugjalda, í Töðugjaldabæklingnum og á heimasíðu Rangárþings ytra, einnig mun það ekkert fara framhjá gestum hvar verður opið.

Á laugardeginum er svo þétt dagskrá allan daginn sem byrjar á gönguferð um Ægissíðuhella kl. 09:30 en hún fer frá gömlu sjoppunni við Ægissíðu. Því næst er boðið í morgunmat í Íþróttahúsinu á Hellu þar sem Harmonikkufélag Rangæinga mun leika nokkur lög. Bíla- og tækjasýning verður á árbakkanum þar sem má sjá torfærubíla, fornbíla og björgunartæki ásamt fleiri tækjum. Markaðstjaldið opnar kl. 12:30 og verður allskonar varningur til sölu, hoppkastalarnir verða blásnir upp á svipuðum tíma og svo hefst barna- og fjölskyldudagskrá kl. 14:00 við Grunnskólann á Hellu. Þar mun Björgvin Franz kynna, Sirkus Íslands kemur fram, fegurðar- og hæfileikakeppni dýranna, hæfileikakeppni barnanna og margt fleira. Héraðsmót HSK í starfsíþróttum hefst kl. 13:00 og verður skráning á staðnum. Þar verður keppt í fuglagreiningu, stafsetningu og pönnukökubakstri. Þar má búast við æsispennandi keppni. Umhverfisviðurkenning Rangárþings ytra verður veitt á aðalsviði áður en barnadagskrá hefst. Um kvöldið verður ekki síðri dagskrá þar sem hinn þjóðkunni Laddi kemur fram, hverfakeppnin verður á sínum stað, Pétur úr Buffinu og Björgvin Franz halda uppi stuðinu í brekkusöngnum fram að flugeldasýningu. Laugardagurinn endar svo á stórdansleik með hljómsveitinni Buff í Rangárhöllinni þar sem slegið verðu í alvöru Töðugjaldaball.

Sunnudagurinn er svo rólegri dagur en þá mun Hugverk í Heimabyggð hafa opið í Menningarsalnum á Hellu frá kl. 10:00 – 16:00 þar sem verður handverk, lifandi tónlist og fleira. Um að gera að nýta daginn í viðburði sem eru utan dagskrár svo sem ratleikinn og sögugöngu um Hellu í gegnum wapp appið. Sjá nánar á facebook-síðu töðugjalda.

Sjáumst á Hellu um helgina – við lofum frábærri skemmtun!

Aðsend fréttatilkynning

Fyrri greinLottuðu á leið úr út bænum
Næsta greinÁsberg fékk menningarverðlaunin