Páll Valur: Áttu annan, hæstvirti fjármálaráðherra?

Ótrúlega margir í okkar landi geta nýtt sér glufur í skattkerfinu með því það að telja bara fram fjármagnstekjuskatt eða með öðrum orðum gefa bara upp lágmarkstekjur undir skattleysismörkum en borga sér síðan arð út úr fyrirtækjum sínum.

Og hvað þýðir þetta?

Jú, þetta þýðir að þeir sem þetta gera borga ekki það gjald til samrekstursins í sveitarfélögunum þar sem þeir búa og aðrir íbúar þar þurfa að gera. Þeir fara því í sund og senda börnin sín í skóla, fá bók á bókasafninu og kalla á slökkviliðið ef það kviknar í hjá þeim en þeir láta aðra íbúa í sveitarfélaginu borga kostnaðinn af þessu fyrir sig.

Mér finnst þetta vera siðlaust en eins furðulegt og það nú er þarf þetta ekki endilega að vera ólöglegt.

En hlýtur það þá ekki að vera algjört forgangsverkefni hjá stjórnvöldum að stoppa upp í svona glufur í kerfinu? Er ekki ríkisstjórnin að leita allra leiða til að koma í veg fyrir að launafólk – sem þarf nú að réttlæta fyrir þjóðinni að 300 þús kr. í mánaðarlaun þurfi til að geta framleytt sér og fjölskyldum sínum – sé þannig látið borga reikningana fyrir þá sem hafa úr miklu meira að spila?

Ég hef ekki séð nein merki þess að ríkisstjórnin líti á það sem mikilvægt verkefni. Það er auðvitað stórfurðulegt en það segir mikið um áherslurnar hjá þessari ríkisstjórn og fyrir hverja hún vinnur. Almennt launafólk er ekki efst á forgangslista á ríkisstjórnarfundum þessi misserin.

Það skal því engan undra að það stefni í harðvítug átök á vinnumarkaði á vormánuðum. Og enn og aftur glymur gamli sérréttindasöngurinn um að sá þjóðfélagshópur sem erfiðustu störfin vinnur en minnst hefur á milli handanna sé ábyrgur fyrir því að það ríki stöðugleiki í atvinnu- og efnahagslífinu. Gamla tuggan um að hér fari allt andskotans til ef lægstlaunaða fólkið fær aðeins stærri skerf af kökunni sem bökuð er í þessu landi og það leggur sjálft mest af deiginu til.

Og hver er nú krafa þessa þjóðfélagshóps sem heldur af veikum mætti uppi því velferðarkerfi sem þessi þjóð státar sig af að búa við? – Jú, 300 þúsund króna lágmarkslaun!

Hvílík græðgi! Hvílík heimtufrekja!

Er nema von að forkólfum atvinnurekenda blöskri þessi ósvífni? Þetta ábyrgðarleysi! Sjálfir hafa þeir auðvitað lúsarlaun og forstjórar og stjórnendur í fyrirtækjum lepja flestir dauðann úr skel.

Þegar þessi ríkisstjórn tók við fyrir tveimur árum síðan hafði hún falleg orð um það að hún myndi leitast við virkja samtakamátt þjóðarinnar, vinna gegn sundurlyndi og tortryggni í samfélaginu til að hér gæti hafist nýtt skeið vaxtar og stöðugleika og sáttar um uppbyggingu vinnumarkaðar til framtíðar til að treysta undirstöður velferðar og bættrar afkomu heimilanna.

Eru ráðherrrnir búnir að gleyma þessu? Eða meintu þeir kannski aldrei neitt með þessu? Voru þeir kannski bara í svo góðu skapi og fannst svo gaman að vera orðnir valdamenn, ráðherrar, að þeir vildu endilega segja eitthvað fallegt við þjóðina?

Ég veit það ekki. En ég veit að þessi ríkisstjórn hefur alls ekki staðið við þessi orð. Þessi ríkisstjórn hefur gert nánast allt þveröfugt við það sem hún lýsti yfir þegar hún tók við völdum og ráðherrarnir brostu svo stoltir og fínir og góðlegir framan í myndavélarnar á Bessastöðum.

Mér fannst það því broslegt eða nánast vandræðalegt þegar Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hvatti til þess á þingfundi 26. mars sl. að við tækjum öll höndum saman og reyndum að leysa þau vandamál sem ættu sér stað á vinnumarkaðnum í stað þess að reyna að æsa þau frekar upp.

Sjálfsagt meinti fjármálaráðherra þetta og hefur verði einlægur í því en það kæmi mér ekki á óvart að einhverjir í þessu landi sem tilheyra þeim hópum sem hafa fengið skýr skilaboð um að þeir eru mjög neðarlega á forgangslista ríkisstjórnarinar hafi spurt sig hvort þetta væri brandari hjá ráðherranum og einhverjir hafi jafnvel sagt við sjálfa sig:

Áttu annan, hæstvirti fjármálaráðherra?

Páll Valur Björnsson
Þingmaður Bjartrar framtíðar í Suðurkjördæmi
Fyrri greinMjótt á mununum í kosningum í Ölfusinu
Næsta greinÞórsarar komnir í sumarfrí