Hjalti Tomm: Ábyrgðarleysi og lítilsvirðing Samtaka atvinnulífsins

Kröfur Starfsgreinasambands Íslands á hendur Samtaka atvinnulífsins voru kynntar á mánudag.

Viðbrögð framkvæmdastjóra SA voru með gamalkunnum hætti. Þessi viðbrögð hafa alltaf komið fram þegar verkafólk hefur mannað sig upp í að krefjast síns hluta kökunnar. Söng Þorsteins ætla ég ekki að endurtaka hér enda er ekki annað að sjá og heyra en hann eigi ágætt aðgengi að fjölmiðlum.

En í ljósi síðust atburða á vinnumarkaði liggur manni við að vorkenna honum. Ég hélt ekki að ég ætti eftir að segja þetta en maður er sennilega að verða meir með aldrinum. Vandi Þorsteins og félaga liggur í að samfélagið, að því virðist í heild sinni, vera hætt að kaupa hræðsluáróðurinn sem SA eys yfir okkur eins og hlandi úr fötu í hvert sinn sem verkafólk sýnir tilburði til að rétta hlut sinn.

Hvernig má það vera að fyrirtæki virðast nánast endalaust getað hækkað laun stjórnenda sinna, greitt út arð til eigenda sinna, keypt og selt hvert annað og staðið í fjárfestingum innalands og utan meðan það er ekki til fjármagn til að greiða hærri laun? Og hvaðan kemur það ábyrgðaleysi og lítilsvirðing að neita að ræða við lögbundin samtök launafólks um löglega framkomnar kröfur? Ég velti fyrir mér hvort verkafólk eigi skilið aðra framkomu en til dæmis stjórnendur.

Þau rök að hér fari allt á hliðina ef verkafólk og aðrar lægra launaðar stéttir fá launahækkun vekur upp margar spurningar í viðbót við þær sem fram koma hér á undan. Það er einungis eitt sem styður þau rök. Það er ef atvinnurekendur hætta ekki að líta á launakostnað sem hluta af taprekstri fyrirtækja sinna. Ég vil taka svo djúpt í árina að segja að fyrirtæki sem ekki getur greitt laun sem duga til framfærslu er ekki rekstrarhæft. Ég, og ábyggilega fleiri, hafa stundum heyrt atvinnurekanda lýsa auknum launakostnaði sem hluta skýringar á tapi fyrirtækis. Atvinnurekendur þurfa að líta á launakostnað sem fjárfestingu í vinnuframlagi, þekkingu og færni. Ef hærri laun þýða minni arðgreiðslur þá verður svo að vera. Ég hef grun um að það muni skila sér til baka til fyrirtækjanna þó síðar verði.

Manni finnst stundum eins og orðin „hagnaður og arður“ hafi í huga forsvarsmanna Samtaka atvinnulífsins sömu merkingu og nafn Múhameðs spámanns og Kóraninn hafa í huga strangtrúaðra múslima. Hver sá sem ekki er sammála trúuðum (Samtökum atvinnulífsins) er ómarktækur, óábyrgur eða óraunsær. Ég ætla að enda samlíkinguna hér.

Eins og með alla öfgatrú þá á venjulegt fólk erfitt með að skilja hvað liggur að baki svona hugsun. Manni liggur við að halda að forsvarsmenn atvinnulífsins séu orðnir svo blindaðir af græðgi að þeir séu hættir að sjá fólkið sem vinnur í fyrirtækjunum. Þetta fólk á sér drauma um framtíð, heimili og börn. Hvernig getur einhver farið heim til sín og sofið, vitandi að stór hluti starfsmanna hans á varla til hnífs og skeiðar? Hvernig geta forsvarsmenn atvinnulífsins réttlætt arðgreiðslur sínar eða ofurlaun, vitandi að stór hluti starfsmanna þeirra er í eilífum slag við að ná endum saman? Og nú er ég að ræða þá atvinnurekendur sem þó greiða að lágmarki eftir samningum. Ég ætla að geyma til betri tíma að ræða þá vinnuveitendur sem vísvitandi svindla eða reyna koma sér undan umsömdum launagreiðslum en þeir eru allt of margir eins og við vitum.

En það má skoða fleira.

Hver er til dæmis kostnaður samfélagsins af því að halda stórum hópi launafólks og öryrkja við hungurmörkin? Gæti verið að óhætt yrði að lækka ýmsar álögur á fólk og fyrirtæki ef laun yrðu með þeim hætti að fólk gæti lifað af þeim? Hugsanlega fækkaði ferðum til geðlækna og stoðkerfissérfræðinga, tannhirða fólks myndi líklega batna og verða ódýrari, fólk hefði efni á að láta gera við bílana sína og kaupa góð dekk sem myndi lækka kostnað samfélagsins af slysum og svo mætti lengi telja.

Atvinnurekendur geta ekki látið eins og þeir séu upphaf og endir alls í þessu samfélagi. Þeirra skylda er ekkert minni en okkar hinna að reka hér samfélag sem byggir á sanngirni og heiðarleika.

Krafan um mannsæmandi laun er sanngjörn og réttmæt. Ef ekki þá er sannarlega kominn tími fyrir hugsandi fólk að svipast um eftir lifibrauði annarstaðar en hér.

Hjalti Tómasson, félagsmaður Bárunnar, stéttarfélags.

Fyrri greinSigríður Birna ráðin á Krakkaborg
Næsta greinEyþór skipaður formaður Þjóðleikhúsráðs