Andrés Arnalds: Hvar má aka?

Akstur utan vega er grafalvarlegt vandamál sem spillir landi víða. Þó er það í raun enn verra að hér á landi ríkir mikil óvissa um hvar má aka vélknúnum ökutækjum.

Hjá öðrum þjóðum er birtingarmynd vegakerfa skipulagsmál. Við höfum hins vegar farið þá undarlegu leið að gefa þetta frjálst. Hér hefur það tíðkast að aka með GPS tæki eftir förum eða slóðum sem sjást í landi, eða leita slíkt uppi með aðstoð fjarkönnunargagna og birta síðan almenningi upplýsingarnar óháð skipulagsgerð sveitarfélaga eða mati á því hvort um raunverulega vegi sé að ræða. Reiðvegir hafa jafnvel birst á kortum sem akvegir, svo sem hinn forni Kjalvegur, ófær öllum bílum, og Skúlaskeið. Þetta er galið kerfi!

Er þetta rétta leiðin til að móta framtíðarvegakerfi þjóðarinnar? Sem dæmi um misræmið í birtingu upplýsinga um vegi og vegslóða eru um 13.000 km gagnagrunni Vegagerðarinnar. Sá sem bíður best í þeim efnum er með fjórfalt meira, um 42.000 km. Óvissan hvar má aka er eitt stærsta gatið í skipulagsmálum Íslands.

Það er verið að taka til í þessum málum, en staðan er erfið þar til fram kemur opinber gagnagrunnur með „löglegum” leiðum. Við slíka vinnu þarf vandaða skipulagsferla og skilgreina verður ábyrgðaraðila fyrir hverja leið sem sýnd er.

Andrés Arnalds,
fagmálastjóri Landgræðslu ríkisins

Fyrri greinGyrðir, Þórarinn og fleiri lesa
Næsta grein47 keppendur tóku þátt á fertugasta mótinu