Kristín Þórðar: Gleðitíðindi úr Rangárþingi eystra

Á síðasta fundi sveitarstjórnar Rangárþings eystra dró til tíðinda. Hæst ber þar, að sveitarstjórn samþykkti að lækka leikskólagjöld um 25%.

Mál þetta á sér nokkra sögu sem þykir rétt að fara yfir. Mikil umræða var um það í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga sl. vor að leikskólagjöld hér væru allt of há, og það á landsvísu. Það var yfirlýst markmið okkar á D-listanum að lækka leikskólagjöld.

B-listi var með það markmið í sínum kosningabæklingi – að „halda leikskólagjöldum undir landsmeðaltali“. Það var einkennilegt markmið þar sem ljóst var að leikskólagjöld í sveitarfélaginu voru langt yfir nefndu meðaltali . Eflaust hefur frambjóðendum á B-lista þó gengið gott eitt til.

Á íbúafundi í Hvolnum 27. maí sl. kom ennfremur fram hjá fulltrúum B-lista að þau væru væru byrjuð að lækka leikskólagjöldin með því að hafa ekki hækkað þau um síðustu áramót.

Á fundi sveitarstjórnar þann 4. september sl. var tekin fyrir tillaga okkar á D-lista sem miðaði að því að lækka strax leikskólagjöld um 10% og að stefnt skyldi að frekari lækkun í fjárhagsáætlunargerð. Tillaga okkar var í takt við ábyrga fjármálastjórn og var í henni gerð grein fyrir hvernig mæta skyldi „tekjutapi“ sveitarsjóðs vegna lækkunarinnar, eins og lög gera ráð fyrir.

Meirihlutinn sá sér ekki fært að samþykkja tillöguna að svo komnu máli, rengdi raunar atriði í greinargerð með tillögunni, eins og þá fullyrðingu að það væri staðreynd að foreldrar í Rangárþingi eystra greiddu nú ein hæstu leikskólagjöld á landinu. Gerði meirihlutinn það að tillögu sinni að fresta afgreiðslu tillögunnar og afla álitsgerðar um málið, þar sem borin yrðu saman leikskólagjöld og tilheyrandi afslættir á landsvísu.

Pricewaterhouse Coopers vann góða skýrslu um efnið og niðurstöður hennar voru sláandi. Í því ljósi taldi sveitarstjórn að rétt væri að lækka leikskólagjöld um 25% frá og með 1. nóvember nk.

Við þökkum meirihlutanum fyrir að snúast á sveif með okkur í þessu mikilvæga máli, enda eigum við það sameiginlega markmið að skapa hagstæð búsetuskilyrði í Rangárþingi eystra og auka þannig lífsgæði íbúanna.

Hægt er að kynna sér niðurstöður álitsgerðar PWC á heimasíðu sveitarfélagsins; www.hvolsvollur.is

Kristín Þórðardóttir, sveitarstjórnarmaður í Rangárþingi eystra

Fyrri greinBláberja chia-búðingur
Næsta greinFöstudagur: Gasmengun um stærstan hluta Suðurlands