Lilja Einars: Fjölskyldan blómstrar í Rangárþingi eystra

Fjölskyldan er hornsteinn samfélagsins og eðli málsins samkvæmt eru málefni fjölskyldunnar mikilvægur þáttur í rekstri hvers sveitarfélags.

Núverandi meirihluti í Rangárþingi eystra hefur unnið markvisst í þágu fjölskyldunnar og vill gera enn betur á komandi kjörtímabili.Við erum afar stolt af því starfi sem unnið er í leik- og grunnskóla hér og hefur frumkvöðlastarf í aukinni samvinnu beggja skólastiga vaxið og dafnað undir styrkri stjórn þess góða fagfólks sem hjá menntastofnunum sveitarfélagsins starfar. Þetta mikilvæga starf þarf að standa vörð um og efla enn frekar á næstu árum. Skólaþjónusta sem styður dyggilega við starf skólastofnananna hefur nú færst heim í hérað sem bæði skapar störf og bætir aðgengi að nauðsynlegri þjónustu.

Samfellu í skóla- og tómstundastarfi hefur verið gert hátt undir höfði, en með því móti er lögð brú milli barna í dreifbýli og þéttbýli með myndarlegum skólaakstri til að allir eigi jafna möguleika til þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi. Með aukinni fjölbreytni í tómstundastarfi geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi, en öflugt tómstundastarf er grundvöllur forvarna.

Við viljum hlúa betur að fjölskyldufólki meðal annars með lækkun leikskólagjalda en fyrsta skrefið í þá átt var stigið um síðustu áramót. Með styrkri fjármálastjórn hefur skuldastaða sveitarfélagsins verðið lækkuð markvisst á sama tíma og uppbyggingu hefur verið haldið áfram en með því móti skapast svigrúm til að lækka m.a. leikskólagjöld enn frekar.

Bætt aðstaða til hreyfingar og heilsuræktar innandyra sem utan hefur verið eitt af stóru verkefnum kjörtímabilsins. Búningsaðstaða, ásamt gufubaði, og nýjum tækjasal eru verkefni sem við erum stolt af. Með góðri aðstöðu til heilsuræktar leggjum við grunn að heilsueflandi menningu sem tengir saman kynslóðir og ólíka samfélagshópa. Leiksvæði fyrir börn hafa fengið andlitslyftingu og þeirri uppbyggingu viljum við halda áfram.

Eldri kynslóðin
Ekki má gleyma því að fjölskylda samanstendur af fólki á öllum aldri og mikilvægt að hlúa einnig að eldri borgurum. Á komandi kjörtímabili er mikilvægasta málefnið að byggja við og efla starfsemi hjúkrunar- og dvalarheimilisins Kirkjuhvols. Við í núverandi meirihluta höfum nú þegar lagt grunn að uppbyggingu á Kirkjuhvoli með hönnunar og skipulagsvinnu og munum beita okkur af öllu afli fyrir því að sú viðbygging verði að veruleika og rísi af myndugleika og hýsi þannig fjölbreytt starf eldri borgara. Við viljum þrýsta áfram á ríkisvaldið, skapa úræði fyrir alla og gera öldruðum kleift að búa áfram í sinni heimabyggð.

Viljir þú tryggja áframhaldandi framgöngu þessara mikilvægu mála í Rangárþingi eystra gerir þú það með því að setja X við B á kjördag.

Lilja Einarsdóttir, hjúkrunarfræðingur, skipar 2. sæti á lista framsóknarmanna og annarra framfarasinna í Rangárþingi eystra.

Fyrri greinEkki til fjármunir fyrir malbiksyfirlögn
Næsta greinÁheyrnarprufur fyrir Töfrahetjurnar á Selfossi