Arna Ír: Börn og fjölskyldur eiga að vera í 1. sæti í Árborg!

Hlutverk sveitarfélaga er að hlúa að velferð íbúa sinna og gæta að félagslegu réttlæti.

Þar getur Árborg orðið í forystu með því að standa vel að þjónustu við fjölskyldur, svo hér sé gott að búa með börn og gaman að vaxa upp. Vellíðan fólks felst í samfélagi þar sem fólk stendur saman og sýnir hvert öðru virðingu og umhyggju.

Í Árborg er margt sem þarf að bæta til þess að við getum boðið ungum barnafjölskyldum sambærileg lífskjör og annars staðar. Við erum t.d. með lægstu endurgreiðslurnar til foreldra sem nota þjónustu dagmæðra. Samfylkingin vill hækka endurgreiðslurnar í 40.000 kr. ásamt því að vinna að fjölgun leikskólaplássa svo börn komist yngri inn á leikskóla. Í Árborg þarf að bjóða foreldrum fatlaðra barna upp á öflugri stoðþjónustu. Foreldrar eiga ekki að þurfa að sækja þessa þjónustu á höfuðborgarsvæðið eins og nú er.

Íþrótta- og tómstundastarf fyrir öll börn óháð efnahag
Virk þátttaka í félagsstarfi er hluti af lífsgæðum barna. Árborg hefur gott tækifæri til að verða í forystu á því sviði með samstarfssamningum við fjölbreytt félög í bæjarfélaginu á sviði menningarmála, frístunda- og íþróttastarfs. Þar má nefna öflug félög á borð við ungmennafélög, hestamannafélag, skáta, golfklúbb, leikfélag, skákfélag og björgunarsveitir. Samfylkingin ætlar að halda áfram markvissri uppbyggingu á aðstöðu til íþróttaiðkunar og forgangsraða þeirri uppbyggingu í samráði við íþróttafélög í sveitarfélaginu.

Frístundaskóli og frístundastrætó
Við viljum bjóða upp á frístundastrætó sem jafnar aðgengi barna til þátttöku í frístundum allsstaðar í sveitarfélaginu því ekki geta allir foreldrar staðið í stanslausi skutli. Auk þess þarf að bæta almenningssamgöngur innan sveitarfélagsins.Við viljum koma á frístundaskóla í samfellu við skólastarf í samstarfi við íþrótta- og æskulýðsfélög, þar sem börn geta stundað fjölbreytt áhugamál, hvort sem það eru íþróttir, félagsstarf eða skapandi greinar. Við viljum hækka frístundastyrki í 26.000 kr. á ári fyrir barn til þess að stuðla að því að öll börn geti tekið þátt óháð efnahag foreldra.

Frí námsgögn næsta haust
Árborg er í lykilaðstöðu til þess að bjóða upp á framúrskarandi þjónustu í leik- og grunnskólum sínum. Samfylkingin ætlar að leggja grunnskólabörnum til frí námsgögn frá og með hausti 2014. Slíkt jafnar aðstöðumun og léttir foreldrum lífið.Við ætlum að efla móðurmálskennslu fyrir börn sem eiga annað móðurmál en íslensku og viljum bæta tölvukost og upplýsingakerfi skólanna.

Við þurfum jafnframt að standa þétt við bakið á fjölskyldum ungmenna sem eiga erfitt með að fóta sig í námi og veita þeim strax úrræði til að fá verðug hlutverk í samfélaginu. Með samstarfi milli Árborgar og FSu er hægt að auka samfellu í námi. Við eigum að gefa nemendum í 9.og 10. bekk grunnskóla kost á að hefja einstaklings bundið list- eða verkgreinanám til þessa að minnka líkur á brotthvarfi og auka vægi slíks náms í samræmi við áhuga nemendanna og menntunarþarfa atvinnulífsins.

Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi og í 2.sæti S-lista í Árborg.

Fyrri greinJafnt hjá Árborg í hörkuleik
Næsta greinFulltingi opnar útibú á Selfossi