Maddý: Önnur saga af sveitarfélagi

Sveitarfélagið Árborg er ungt sveitarfélag sem byggir á traustum grunni fjögurra hreppa Selfoss-, Sandvíkur-, Eyrabakka- og Stokkseyrarhrepps.

Sveitarfélagið okkar er fullt af tækifærum og gott til búsetu. Margt fólk hefur lagt hönd á plóginn í sveitastjórnum frá upphafi þessara hreppa og til dagsins í dag, fólk sem hefur kappkostað að gera ætíð sitt besta til að gera sveitarfélagið okkar betra fyrir okkur öll. Auðvitað erum við ekki alltaf sammála um alla hluti en það er eitt af því dýrmæta sem við Íslendingar eigum, það er að vera frjáls til að hafa skoðun og geta tjáð hana í máli og riti. Við getum verið sammála um að þjónusta við fólkið sé mikilvægust og að vel sé haldið utan um æskuna sem er framtíð samfélagsins.

Ég hef skoðað ársreikninga Árborgar til margra ára og ég get ekki sagt að ég sé sammála því sem fyrir okkur hefur verið lagt um afkomu og skuldir Árborgar í ársreikingi 2013. Að leggja fyrir okkur upplýsingar um að skuldir hafi lækkað um 3 milljarða á föstu verðlagi finnst mér undarlegt, hvað er á föstu verðlagi meðan verðbólga og verðtrygging er við líði?

Skuldir bæjarsjóðs Árborgar voru 2010 rúmir 4.8 milljarðar og eru um sl. áramót rúmir 4,7 milljarðar. Skuldir bæjarsjóðs og b-deildar fyrirtækja voru 2010 6.3 milljarðar og voru 6.2 milljarðar um sl. áramót, sveitarfélagið ber fulla ábyrgð á skuldum félagsbústaða þó þeir hafi verið settir í sjálfseignarstofnun. Rekstur bæjarsjóðs hefur verið með tapi frá því 2007 og eins er árið 2013 en þá vantaði um 36 milljónir króna til að hann væri á núlli. Rekstur bæjarsjóðs og b-deildar fyrirtækja skilaði rekstrarhagnaði um 350 milljónir króna og er það vegna þess að vatnsveita og fráveita skiluðu hagnaði.

Rekstur sveitarfélaga um allt land hefur verið þungur frá því um hrun eins og nær allra heimila í landinu. Það hefur verið ærið verkefni hjá okkur öllum að halda velli á þessum erfiðu tímum.

Margt gott hefur áunnist hér í Árborg síðustu fjögur ár í góðri sátt allra bæjarfulltrúa sem hafa lagt sig fram við að gera sitt besta eins og forverar þeirra síðustu áratugina. Þökkum öllu því góða fólki sem hefur lagt samfélaginu lið frá upphafi. Árborg er öflugt sveitarfélag sem er áhugaverður og góður valkostur til búsetu. Nýtum kosningaréttinn og veljum okkur fólk til starfa fyrir sveitarfélagið okkar næstu fjögur ár.

X-B fyrir Betri Árborg.

Margrét K. Erlingsdóttir, fyrrverandi bæjarfulltrúi og skipar 18. sæti á lista Framsóknar.

Fyrri greinHringiða opnuð í Listasafninu
Næsta greinFlytur allar fjáröflunarvörur félagsins