Viktor S.: Lausnir á leigumarkaði

Hlutverk bæjarstjórnar Árborgar er að hlúa að velferð bæjarbúa og eitt þeirra atriða sem bæjarstjórn verður að tryggja er að nægilegur fjöldi íbúða standi íbúum sveitarfélagsins til boða og að búsetuform séu þannig að allir finni húsnæði við hæfi.

Veruleg þörf er á að fjölga leiguhúsnæði í sveitarfélaginu og því er nauðsynlegt að bæjarstjórn skoði strax leiðir til að fjölga leiguíbúðum og öðrum sambærilegum búsetuformum. Viðvarandi skortur á leiguhúsnæði þrýstir verði á leigu upp í hæstu hæðir og margir búa við óöryggi og skammtímaleigu. Þessu viljum við breyta á næsta kjörtímabili.

Áherslur fólks varðandi búsetuform hafa verið að breytast á síðustu árum og sífellt fleiri vilja nú búa í leiguhúsnæði en áður. Fyrir því eru margar ástæður en hluti skýringarinnar er að margir eiga í erfiðleikum með fjármögnum á húsnæðiskaupum, en aðrir sjá kosti í því að losna við miklar fjárfestingar eða vilja búa við ákveðin sveigjanleika. Á sama tíma og þessi þróun hefur átt sér stað hefur leigumarkaður ekki náð að þróast með eðlilegum hætti, barist er um lausar íbúðir, mikil hækkun hefur verið á leiguverði og oft fær fólk ekki hentugt húsnæði til lengri tíma.

Öruggur leigumarkaður og aðkoma sveitarfélagsins
Samfylkingin í Árborg vill að í sveitarfélaginu myndist öruggur og heilbrigður leigumarkaður sem taki mið af þörf íbúanna – til þess að svo megi verða þarf sveitarfélagið að vera tilbúið að leggja sitt á vogarskálarnar. Samfylkingin vill stuðla að og hjálpa til að byggðar verði leiguíbúðir fyrir ungt fólk og tekjulágar fjölskyldur þannig að öllum bjóðist húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Af þessum sökum vill Samfylkingin leiða saman lífeyrissjóði, búsetufélög og byggingarfyrirtæki til að reyna að mynda traustan leigumarkað í Árborg, þannig að langtíma leiga og búseturéttur geti verið raunhæfur kostur fyrir búsetu einstaklinga og fjölskyldur.

Leigufélög hluti af lausninni
Samfylkingin í Árborg telur einnig rétt að skoðað verði hvernig hægt sé að koma á móts við og hvernig eiga megi samstarf við húsnæðissamvinnufélög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni, varðandi uppbyggingu á íbúðum í sveitarfélaginu. Ljóst er að rekstur slíkra leigufélaga myndi fjölga búsetuúrræðum og stuðla að því að einstaklingar og fjölskyldur gætu komist í framtíðar leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum. Ef rétt er að málum staðið á að vera hægt að styrkja og auka fjölbreytileika í húsnæðisúrræðum í Árborg og efla þannig sveitarfélagið og velferð íbúanna.

Lausnir í leigumálum er eitt af stærstu málum okkar á S-listanum í Árborg og munum við leggja mikla áherslu á aðgerðir í leigumarkaðsmálum á næsta kjörtímabili.

Viktor S. Pálsson, lögfræðingur, skipar 4. sæti S-lista Samfylkingarinnar í Árborg.

Fyrri greinFjarskiptafélag Ásahrepps stofnað
Næsta greinVarmadælur skila miklum lækkunum