Eggert Valur: Uppbygging og framfarir í Árborg á næsta kjörtímabili

Nú er rétt um það bil mánuður þar til gengið verður að kjörborðinu og íbúar Árborgar velja sér nýja bæjarstjórn.

Framboðslistar flokkanna hafa verið að taka á sig endanlega mynd nú síðustu vikur og ljóst að fleiri valkostir verða í boði en oft áður.

S listi Samfylkingarinnar býður fram öflugan og breiðan hóp fólks, sem kemur víða að úr sveitarfélaginu og þekkir vel til þeirra mála sem heitast brenna á íbúunum. Hópur af nýju fólki gengur til liðs við okkur og er endurnýjun á listanum mikil þar sem saman fer reynsla okkar bæjarfulltrúa við ferska strauma með nýju fólki.

Það er mín skoðun að hugsjónir frjálslyndrar jafnaðarstefnu og félagslegra sjónarmiða þurfi meira vægi við stjórn sveitarfélagsins. Um það mun baráttan m.a. snúast hjá okkur í vor. Jafnaðarstefnan er ekki óvinur einkaframtaksins né fyrirtækjareksturs. Hún gerir einfaldlega þá kröfu að allir sitji við sama borð, hafi jöfn tækifæri og fyrirtæki viðurkenni þá samfélaglegu skyldu sína að hugsa um samfélag sitt, efnahagslega, umhverfislega og félagslega.

Staðreyndin er sú að bæjaryfirvöld, fyrirtæki, íbúar og félagasamtök þurfa að vinna saman svo árangur náist. Nú sem aldrei fyrr er nauðsynlegt að horfa til framtíðar, við aðstæður þar sem sparnaður og aðhalds er þörf í rekstri sveitarfélagsins, þurfum við að finna leiðir til þess að styrkja okkur með gildi jafnaðarstefnunnar að leiðarljósi til uppbyggingar og framfara í Árborg á næsta kjörtímabili.

Öruggan leigumarkað og ný atvinnutækifæri

Málefnaskrá Samfylkingarinnar mun verða kynnt eftir rúma viku þegar við opnun formlega kosningaskrifstofu okkar í Samfylkingarsalnum á Eyrarvegi. Þar verða ekki í boði hástemmd kosningaloforð og yfirboð heldur ábyrg og framsækin framtíðarsýn á grundvelli jöfnuðar og félagshyggju.

Vissulega er stjórn bæjarfélags mikið verkefni og áskorun, það skiptir máli hverjir stjórna og mikilvægt að það sé unnið af hagsýni og fyrirhyggju með hagsmuni allra íbúa í huga. Margt hefur tekist ágætlega á því kjörtímabili sem er að líða, er það ekki síst að þakka góðum samstarfsvilja minnihlutaflokkanna í bæjarstjórn.

Það er gott að búa í Árborg, en góða þjónustu og gott mannlíf má alltaf bæta. Efla þarf leigumarkað fyrir ungt fólk og tekjulága þannig að leiga sé öruggur valkostur fyrir þá sem það vilja og þurfa. Þá þarf að beita afli sveitarfélagsins til að atvinnutækifæri verði fjölbreyttari en nú er me því að laða að fólk og fyrirtæki á ólíkum sviðum þekkingar, framleiðslu og þjónustu.

Að því vill Samfylkingin í Árborg vinna með ykkar stuðningi fólksins í sveitarfélaginu. Það er mikilvægt að tryggja að í bæjarstjórn, veljist duglegt og hæfileikaríkt fólk sem er tilbúið að vinna saman að eflingu sveitarfélagsins. Það fylgir ábyrgð að bjóða sig fram til starfa í bæjarstjórn, og kjósendur ætlast til að fólk sinni þeim störfum sem það er kosið til af ábyrgð og festu. Undir þeirri ábyrgð ætla frambjóðendur Samfylkingarinnar að standa.

Eggert Valur Guðmundsson bæjarfulltrúi og oddviti Samfylkingarinnar í Árborg.

Fyrri greinHeimamenn buðu lægst í þakviðgerð
Næsta greinKvenfélagið gaf bingóágóða