Sandra Óskars: Að láta drauma sína rætast

Hver kannast ekki við að vilja prófa svo margt og gera svo margt en einhverra hluta vegna verða hugmyndirnar aldrei meira en bara mesta lagi eintómur draumur?

Sumir hafa lista yfir þessar hugmyndir og kallast sá listi „the bucket list“ á ensku. The bucket list er persónubundinn listi yfir hluti eða athafnir sem einstaklingur vill gera, upplifa eða afreka á sinni lífstíð. Listinn getur verið ýmist stuttur eða langur og hugmyndirnar verið jafn mismunandi og við erum mörg, allt frá því að ganga upp á Esjuna og yfir í það að fara í heimsreisu. Listinn getur innihaldið allskonar drauma en að sjálfsögðu verða hugmyndirnar að vera framkvæmanlegar.

Mjög margir eiga slíkann lista eða hafa hugmyndir um eitthvað sem þeim langar virkilega að upplifa, prófa eða afreka í lífinu en hinsvegar eru ekki jafn margir sem láta hugmyndirnar verða að veruleika. En það er einmitt málið, hvers vegna ekki? Hvers vegna ekki að klifra Esjuna, fara í fallhlífastökk, ferðast um Evrópu, fara á brimbretti, ferðast hringinn í kringum Ísland, búa í útlöndum, verða skiptinemi, hlaupa maraþon, sækja um ákveðna vinnu eða gera það sem þig langar virkilega að gera? Ég veit það er til nóg af afsökunum eins og peningaleysi, tímaleysi og hitt og þetta. En hvernig væri að yfirstíga hindranirnar og leita lausna í staðinn? Það er til dæmis hægt að skoða mismunandi leiðir til að framkvæma hugmyndirnar sínar, það er hægt að safna fyrir draumafríinu með því að nota sérstakann sparireikning eða jafnvel athuga með styrki. Einnig eru til þjónustusíður á borð við Nínukot og Kilroy sem koma að góðum notum þegar hugmyndirnar innihalda ferðalög og ævintýri.

Hugmyndirnar eru mis stórar og þarf því að leggja mis mikið á sig til að þær verði að veruleika. En ef þig langar virkilega mikið að hugmyndin þín verði að veruleika þá ættiru að vera tilbúin/n að leggja mikið á þig, því erfiðið mun vera þess virði. Tilfinningin við að framkvæma hugmyndir á listanum sínum er nánast ólýsanleg. Ég upplifi nánast alltaf sömu tilfinninguna þegar ég framkvæmi eitthvað af listanum mínum en sú tilfinning er samblanda af stolti og þvílíkri hamingju. Þessi tilfinning er ein af þeim bestu sem ég hef kynnst og er það þess vegna sem ég held áfram með minn bucket-lista. Að toga í fallhlífina eftir að hafa stokkið út úr flugvélinni, að standa á brimbrettinu og horfa yfir ströndina, að gerast aupair í Bandaríkjunum í heilt ár og kynnast nýju fólki og nýrri menningu, að skoða Niagra fossana í Kanada, að ganga upp Esjuna og að fara loksins í Seljarvallalaugina. Allar þessar upplifanir, ásamt mörgum fleirum, hafa veitt mér svo mikla hamingju vegna þess að ég tók ákvörðun um að framkvæma það sem mig langaði svo innilega að upplifa.

Ég tel þetta vera góða leið til að lifa lífinu og vera hamingjusamur, þá er ég ekki að tala um mínar hugmyndir, heldur það að láta hugmyndir sínar verða að veruleika, það að framkvæma atriðin á bucket-listanum sínum. Það skiptir ekki máli hvort hugmyndirnar séu stórar eða smáar heldur er aðalatriðið að þær veiti einstaklingum, ungum sem öldnum, hamingju og stolt. Að taka fyrsta skrefið er góð byrjun en svo þarf viljastyrk til að halda áfram alla leið. Láttu drauma þína verða að veruleika!

Sandra Óskarsdóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði HÍ.

Fyrri greinAlþjóðlegur dagur Downs heilkennis í dag
Næsta greinFærði Dagrenningu góða gjöf