Magnús Gísla: Að horfa fram á við

Það er mikilvægt að hlúa að þeim sem skilað hafa dagsverkinu. Áhyggjulaust ævikvöld í nálægð við fjölskyldu er það sem flestir myndu óska sér.

Þjóðin eldist og á næstu tveimur áratugum má sjá mikla breytingu á aldurssamsetningu hennar. Þau hjúkrunarrými sem boðið er upp á við Heilbrigðisstofnun Suðurlands eru nokkuð ásetin. Biðlistar munu lengjast með tíð og tíma eftir því sem aldurssametning breytist.

Það er erfitt að sjá á eftir því fólki sem þarf jafnvel að leita út fyrir sveitarfélagið. Af þessu skapast óþægindi fyrir viðkomandi einstakling jafnt sem aðstandendur. Það er auðvitað svo að aðkomu ríkissjóðs þarf til að reka hjúkrunarheimili. Þess vegna er ekki farið af stað með slíkar framkvæmdir og áætlanir án ríkis.

Þessi mál gætu flokkast undir langtímaverkefni en skipulag og aðstaða þarf að vera fyrir hendi af hálfu sveitarfélaganna. Það er mikilvægt að gera hlutina í réttri röð og það verður hlutskipti komandi sveitarstjórnar að kalla eftir nauðsynlegri umræðu bæði heima fyrir og við stjórnvöld.

Þeir sem eldri eru þurfa að huga að þeim búsetuskilyrðum sem í boði eru í sveitarfélaginu Árborg. Þess eru dæmi að einkaaðilar hafi byggt íbúðir ætlaðar fyrir 50 ára og eldri, það hefur tekist vel og verið til sóma. Það eru svo aðrar lausnir sem hugsanlega þarf að horfa til. Þar má nefna öryggisíbúðir sem eru með meiri möguleika fyrir einstaklingana sem þar búa. Það er mikilvægt að meta stöðuna og gera úttekt á því hver þörfin á hefðbundnum íbúðum og öryggisíbúðum verður á komandi árum.

Það er fyrir marga góður kostur að lengja þann tíma sem fólkið okkar er heima. Það þarf hinsvegar að gerast án þess að það komi niður á aðstandendum. Það eru kostir til sem skoða ætti vel og nefndar hafa verið eins og öryggisíbúðir. Einnig má nefna meiri persónulega aðstoð við útréttingar, þrif, hreyfingu, hjúkrun og önnur þau úrræði sem eru í boði í dag og kunna að bjóðast í framtíðinni.

Hver og einn einstaklingur ætti að geta fundið búsetu við sitt hæfi og hafa um það val. Það á við hvar sem viðkomandi býr innan sveitarfélagsins. Allt eru þetta viðfangsefni framtíðar og þeim sem kjörnir eru til trúnaðarstarfa ber að hugsa fram í tímann í þessum málum sem öðrum.

Magnús Gíslason, býður sig fram í 3.-4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Árborg.

Fyrri greinVínbúðin flytur í Sunnumörk
Næsta greinFrábær fjölskylduskemmtun