Starfsfólk HNLFÍ: Baráttan um heilsuna

„Eina ferðina enn er niðurskurðarhnífurinn á lofti,“ hugsuðu allir þegar tillögur um nýju fjárlögin litu dagsins ljós.

Drögin fyrir okkar málaflokk líta þannig út:

479-494 Endurhæfingarstofnanir. Á eftirfarandi yfirliti er sýnd sundurliðun fjárveitinga til endurhæfingarstofnana sem falla undir fjárlagaliði 479-494.

Heildarfjárveiting til málaflokksins nemur 2.774,1 m.kr. og lækkar um 34 m.kr. frá fjárlögum yfirstandandi árs að frátöldum launa- og verðlagsbótum sem nema 91,2 m.kr. Tímabundið 7 m.kr. framlag til Hlaðgerðarkots sem veitt var til viðhaldsframkvæmda í fjárlögum 2013 fellur niður. Til að mæta veltutengdum aðhaldsmarkmiðum ríkisstjórnarinnar er lögð til 27 m.kr. lækkun á fjárveitingu til Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands. Stefnt er að því að endurskilgreina þjónustukaupin og draga úr léttari endurhæfingu.”

Þarna er HNLFÍ talin upp meðal sambærilegra stofnana. Áberandi er að HNLFÍ á að taka á sig allan fyrirhugaðan niðurskurð í sínum málaflokki.

Hvað er átt við með „léttari endurhæfingu“? Hjá okkur á HNLFÍ er unnið endurhæfingarstarf á mörgum sviðum í þungri og meðalþungri endurhæfingu.

Hér starfa m.a. sjúkraþjálfarar, sjúkranuddarar, íþróttakennarar, sálfræðingar, læknar, næringarfræðingur, hjúkrunarfræðingar og fleira fagfólk sem vinnur að því að hjálpa fólki að ná heilsu á ný. Við fáum daglega þakklæti fólks sem nær bata eftir að hafa nýtt sér fjölbreytta þjónustu okkar. Við skiljum vel að það þurfi að spara og erum ekki að skorast undan þeirri ábyrgð, frekar en aðrir á Íslandi í dag. En það er sanngirnismál að sparnaðaraðgerðir gangi jafnt yfir alla!

Niðurskurður til starfsemi HNLFÍ má ekki ná lengra. Ef af verður mun mikilvægt endurhæfingarstarf sem unnið er hér verða í mikilli hættu og þar með einnig heilsa landsmanna. En heilsan er það mikilvægasta sem við eigum og vonandi skilja stjórnvöld það áður en það er of seint.

Við skorum á Sunnlendinga að mótmæla því óréttlæti sem er í fjárlögunum og hjálpa okkur í baráttunni við að bæta heilsu okkar allra.

Berum ábyrgð á eigin heilsu!

Starfsfólk Heilsustofnunar NLFÍ

Fyrri greinMálþing um ferðaþjónustu í dag
Næsta greinHúsfyllir á sögustund á Bakkanum