Eggert Valur: Skipulagsmál í Sveitarfélaginu Árborg

Skipulagsmál eru eitt af stærstu viðfangsefnum sveitastjórna hverju sinni. Því fylgir gríðarleg ábyrgð að hafa yfirumsjón og vald yfir skipulagsmálum í sveitarfélögum.

Það getur verið afar dýru verði keypt ef mistök eru gerð í skipulagsmálum og illmögulegt að leiðrétta slíkt eftir á. Þá skiptir miklu máli að skipulagsvinna sé unnin í sem mestri sátt við íbúa sveitarfélagsins með skýra framtíðarsýn að leiðarljósi.

Kirkjubygging við Austurveg?
Meirihluti sjálfstæðismanna í Sveitarfélaginu Árborg hefur samþykkt að lóðinni Austurvegur 37 á Selfossi (Sýslumannstúnið), verði úthlutað til kaþólska safnaðarins á Íslandi. Kaþólski söfnuðurinn hyggst byggja á lóðinni kirkju, prestsbústað og safnaðarheimili. Að sjálfsögðu fylgir svo starfseminni töluvert af bílastæðum.

Undirritaður hefur mótmælt afgreiðslu málsins bæði á vettvangi bæjarráðs og bæjarstjórnar. Að sjálfsögðu eru þau mótmæli ekki tilkomin vegna þess að kaþólski söfnuðurinn með sína starfsemi sé ekki velkominn í Sveitarfélagið Árborg. Hins vegar hefur undirritaður áhyggjur af því að lóðin beri illa ofangreind mannvirki og þau umsvif sem þeim fylgja. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að kirkju- og safnaðarstarf samrýmist þeirri landnotkun og því yfirbragði sem aðalskipulag við þessa fjölförnu þjónustugötu gerir ráð fyrir. Það er því áleitin spurning hvers konar starfsemi íbúar sveitarfélagsins vilja sjá á lóðinni.

Finnum aðra lóð fyrir kirkjuna!
Heildar stærð umræddrar lóðar er 3.620,4 m2. Ef sá trjágróður sem í dag prýðir lóðina verður látinn halda sér minnkar nýtanlegt rými til framkvæmda enn frekar. Til samburðar er heildarlóð Selfosskirkju 9.200 m2, án kirkjugarðs. Flatarmál mannvirkja á lóðinni er 737 m2 að grunnfleti og er þá ekki talið með það rými sem er á annarri hæð mannvirkjanna. Þó ekki liggi fyrir teikningar af þeim mannvirkjum sem til stendur að reisa, má benda á að við Selfosskirkju eru 55 bílastæði sem taka um það bil 2000 m2. Við fjölmennustu útfarirnar eru oft um það bil 600 manns og er bílum þá lagt bæði á árbakkanum og langt út á Selfosstún, auk þess sem lagt er í aðliggjandi götur.

Undirritaður skorar á bæjarfulltrúa meirihluta D-lista að endurskoða afstöðu sína og leggjast í þá vinnu að finna kaþólsku kirkjunni aðra lóð undir starfsemi sína, í sátt við umhverfið og íbúa sveitarfélagsins.

Eggert Valur Guðmundsson,
bæjarfulltrúi S-listana í Árborg

Fyrri greinÁstand lagna í eldri hverfum víða bágborið
Næsta greinÁrborg segir sig úr Skólaskrifstofu Suðurlands